Ráðstafanir í húsnæðismálum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:52:33 (2915)

2000-12-07 13:52:33# 126. lþ. 43.94 fundur 179#B ráðstafanir í húsnæðismálum# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur gert grundvallarbreytingar í mikilvægum málaflokkum með alvarlegum afleiðingum og er enn að. Hann gerbylti húsnæðiskerfinu með þeim afleiðingum að húsnæðisskortur og stórhækkað fasteignaverð fylgdi í kölfarið. Árlega hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu byggt milli 200 og 300 íbúðir í félagslega kerfinu. Þegar lögunum var breytt lögðust þær byggingar af án þess að neitt tæki við. Öllum var vísað á markað þar sem íbúðir skorti á sama tíma og fólksflutningar á höfuðborgarsvæðið voru gífurlegir.

Þær íbúðir sem fyrir voru stórhækkuðu í verði og leigu. Umræðan hér hefur staðfest að hrikalegir biðlistar hafa orðið til. Eina lausnin er leiguíbúðir sem ekki eru fyrir hendi.

Herra forseti. Enn á að taka til hendinni. Í skýrslu frá ráðherra kemur fram að nú á að bylta húsnæðisfyrirkomulagi fatlaðra. Um leið og Öryrkjabandalagið tekur við byggingu sambýla og ríkið heldur eftir rekstrinum verður 4% af stofnverði fasteigna mætt með auknum leigutekjum. Þær eru áætlaðar í skýrslunni 220 millj. kr. og munu lenda á fötluðum sem nýjar eða auknar leigugreiðslur. Á móti eiga aðeins að koma 40 millj. í húsaleigubætur. Nú skulu fatlaðir borga.

Herra forseti. Framganga þessarar ríkisstjórnar í málum láglaunafólks og þeirra sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda er forkastanleg. Menn hafa fundið þá sem nú eiga að greiða skatta og skyldur. Það eru fatlaðir, fátækir, aldraðir og námsmenn.