Ráðstafanir í húsnæðismálum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:56:57 (2917)

2000-12-07 13:56:57# 126. lþ. 43.94 fundur 179#B ráðstafanir í húsnæðismálum# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Félagslega íbúðakerfið hefur um langt árabil verið hluti af stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum. Við höfum gjarnan verið stolt af. En í kjölfar mikillar byggðaröskunar og tekjumissis margra sveitarfélaga eru skuldir þeirra og ábyrgðir vegna félagslega íbúðakerfisins ein alvarlegasta ógnin við sjálfstæði þeirra og möguleika til að veita samkeppnishæfa opinbera þjónustu.

Herra forseti. Ég fullyrði að það væri þjóðhagslega hagkvæmt ef ríkissjóður mundi verja hluta af tekjuafgangi sínum til að afskrifa skuldir sem safnast upp hjá sveitarfélögum vegna verðfalls í félagslega íbúðakerfinu í kjölfar gjaldþrots byggðastefnu ríkisstjórnarinnar. Ég leyfi mér því að spyrja, herra forseti: Ætlar ríkisvaldið að víkja sér undan sameiginlegri ábyrgð á félagslega húsnæðiskerfinu hjá þessum sveitarfélögum og bjóðast einungis til þess að taka af þeim þeirra bestu eignir eða framleiðslufyrirtæki upp í skuldir og létta þannig á vandanum, eins og Vestfirðingum er boðið upp á?

Ég leyfi mér, herra forseti, að spyrja: Hvaða frumkvæði hefur ríkisvaldið tekið í að leysa vanda félagslega íbúðakerfisins á landsvísu?

Að lokum, herra forseti: Er það ætlun ríkisvaldsins að hlaupast burt frá skuldbindingum Byggingarsjóðs verkamanna eins og nú virðist eiga að gera?