Ráðstafanir í húsnæðismálum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:58:42 (2918)

2000-12-07 13:58:42# 126. lþ. 43.94 fundur 179#B ráðstafanir í húsnæðismálum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félmrh. svörin sem mér þóttu þó vægast sagt óhugnanleg, lýsa óhugnanlegu skilningsleysi á því ástandi og þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Hæstv. ráðherra leyfði sér að gera lítið úr biðlistum. Hann segir að tæplega 600 manns hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík sé ekki mikið, það séu aðeins 18 í Hafnarfirði. Biðlistarnir eru miklu lengri en þessu nemur eins og ég gat um í upphafsorðum mínum. Í skýrslu frá félmrn. í apríl sl. segir að langflestar leiguíbúðir vanti á höfuðborgarsvæðinu eða rúmlega 1100 íbúðir svo að biðlistar eftir leiguhúsnæði verði tæmdir, að mati sveitarfélaganna. Á Suðurnes vantar um 50 íbúðir.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég átti ekki von á að menn ætluðu að halda sig við þá óraunsæju upphæð sem sett er fram í fjárlagafrv. um stuðning við félagslegt leiguhúsnæði, þ.e. 50 millj. kr. Það kostar 675 millj. bara að halda í horfinu, til að vega upp á móti þeim fjármunum sem félagslegir leiguaðilar eru sviptir. Við lögðum það til, í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, að þar kæmi 800 millj. kr. framlag til að halda í horfinu og gera átak til úrbóta.

Herra forseti. Ég vil einnig minna á að ríkisstjórnin er að skerða vaxtabætur um 400 millj. kr. Tvennt vil ég leggja áherslu á í lokaorðum mínum. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir segir að afkastageta kerfisins hafi verið aukin en kjörin eru hins vegar óviðráðanleg.