Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 15:08:45 (2926)

2000-12-07 15:08:45# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ekki er verið að breyta þeim lögum með þessu frv. sem hv. þm. vitnaði til. Hins vegar stendur í bráðabirgðaákvæði safnalaganna að verði það frv. að lögum beri að setja Náttúruminjasafni Íslands sérstök lög. Þá er komið inn á það svið sem hv. þm. var að fjalla um og í þeim lögum þarf að taka afstöðu til þess hvað fellur undir Náttúruminjasafnið og hvað fellur undir Náttúrufræðistofnun.

Ég held að hv. þm. sé að gera úlfalda úr mýflugu og sé að gera þau ágætu frumvörp, sem hafa hlotið góðar undirtektir þingmanna, tortryggileg á forsendum sem ég skil ekki almennilega. Ég skil ekki almennilega hvað vakir fyrir hv. þm. þegar hann reynir að gera þessi frumvörp tortryggileg með þessum hætti. Ekki er verið að seilast inn á verksvið Náttúrufræðistofnunar Íslands eða inn á verksvið hæstv. umhvrh. með þessu. Það er verið að leitast við að skilgreina safnastarfsemi í landinu með þeim hætti sem gerð er tillaga til laga um hér. Ég legg til að menn ræði efnislega um þau mál sem hér liggja fyrir en séu ekki að draga ályktanir af því sem fá ekki staðist þegar menn skoða málið nánar.