Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 15:10:05 (2927)

2000-12-07 15:10:05# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði að verið væri að gera þau frumvörp sem hér liggja undir tortryggileg á forsendum sem hann skilur ekki. Það er rangt að verið sé að gera þessi frumvörp tortryggileg. Ég hef þvert á móti borið lof á þrjú þeirra.

Hitt er rétt að hann skilur ekki forsendurnar. Hvers vegna? Vegna þess að hann hefur augljóslega ekki lesið greinargerðir eigin frumvarpa. Í grg. segir að innan tveggja ára eigi að endurskoða lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofu og samræma við þessi lög.

Það gefur augaleið ef í þessum nýju lögum segir að það eigi að vera á valdsviði þjóðminjavarðar að veita heimildir til að flytja út söfn eða safneintök sem tengjast líffræði, bergfræði, grasafræði eða dýrafræði, þá þarf að laga hin eldri lög að því. Það er alveg ljóst að vald þjóðminjavarðar stangast á við það vald sem er að finna í gildandi lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands þegar kemur að því að flytja náttúrugripi úr landi. Þá er alveg ljóst að til þess að samræma hlýtur að þurfa að taka það ákvæði sem ég las áðan út úr lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands --- nema hæstv. umhvrh. hafi kjark til þess að standa upp fyrir málaflokk sinn og fyrir ráðuneyti sitt en sofi ekki á verðinum eins og hún hefur augljóslega gert hérna.

Ég tek hins vegar orð hæstv. menntmrh. góð og gild. Hann segir að ekki hafi verið ætlunin að seilast inn í vald Náttúrufræðistofnunar með þessum hætti. Þá hlýt ég að álykta sem svo að hér sé fyrst og fremst um einhvers konar mistök að ræða. Það verður þá væntanlega leiðrétt í nefndinni og ég sætti mig fullkomlega við það.