Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 15:34:57 (2933)

2000-12-07 15:34:57# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir þau svör sem komu í fyrra andsvari hennar. Þau skýra að mestu það sem við höfum spurt um varðandi þau frv. sem hér liggja fyrir. Þó eru nokkur atriði sem við þurfum að fá óyggjandi upplýsingar um þó þær hafi nokkurn veginn legið í loftinu.

Í fyrsta lagi varðandi ákvæði til bráðabirgða í frv. til safnalaga. Ef ég hef skilið hæstv. umhvrh. telur hún þetta ákvæði til bráðabirgða í raun óþarft vegna þess að í lögunum frá 1992, um Náttúrufræðistofnun, hafi sýningaþátturinn, eini þátturinn sem hér er fjallað um, verið tekinn út og því sé óþarfi að endurskoða lögin um Náttúrufræðistofnun til að hægt verði að setja sérlög um náttúruminjasafnið. Það þarf að vera algjörlega skýrt.

Varðandi 12. tölul. 2. gr. í frv. um flutning menningarverðmæta. Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt þá virðist hæstv. ráðherra sammála okkur um að 12. tölul. sé í raun óþarfur og eðlilegt sé að menntmn. íhugi að láta hann hverfa vegna þess að lög um Náttúrufræðistofnun taki á því sem þar er nefnt.