Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 16:11:37 (2944)

2000-12-07 16:11:37# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[16:11]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. stuðninginn við frumvörpin og þann málstað sem ég hef kynnt varðandi samskipti ríkisstofnana og einkaaðila á þessu sviði. Ég tel að frumvörpin séu þannig úr garði gerð að gæðakröfur ríkisvaldsins verði tryggðar eða gæðakröfur sem menn eiga að gera til ríkisvaldsins um að það sjái um að séu uppi. Einnig tel ég að tryggt sé að innlendir aðilar geti átt gott samstarf við erlenda aðila og að fjölbreytni á þessu sviði geti orðið mikil hér á landi.

Það er rétt sem hv. þm. sagði að það eru meiri verðmæti í þessu fólgin en við gerum okkur almennt grein fyrir. Það er að koma í ljós að sókn manna hingað til að fá að stunda rannsóknir á þessu sviði er meiri en menn óraði fyrir. Ég er sannfærður um að víkingasýningin sem nú er á ferð um Bandaríkin t.d. og Kanada á eftir að kveikja áhuga enn fleiri á því að koma hingað og stunda fornleifarannsóknir og rannsóknir á fornum menningararfi okkar. Við eigum að sjálfsögðu að taka slíkum vísindamönnum opnum örmum. En við verðum að gera það á skýrum og ákveðnum forsendum. Ég tel að þetta frv. og frumvörpin sem við erum að ræða í dag skapi einmitt slíkar forsendur.