Fjárframlög til vegagerðar og 3. umr. fjárlaga

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 16:34:53 (2950)

2000-12-07 16:34:53# 126. lþ. 43.93 fundur 178#B fjárframlög til vegagerðar og 3. umr. fjárlaga# (um fundarstjórn), GE
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[16:34]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Það er e.t.v. undarlegt að kveðja sér hljóðs undir þessum lið þingskapanna, um fundarstjórn forseta. Ekki er þó annars kostur þar sem um störf þingsins á að ræða í upphafi hvers fundar. Það var mér ekki unnt þar sem fjárln. var á fundi á þeim tíma sem þingfundur hófst. Því verð ég að kveðja mér hljóðs undir þessum lið vegna þess að í fjárlagafrv. stendur skýrt að gert sé ráð fyrir að Vegagerð dragi úr framkvæmdum um 800 millj. kr. á árinu og þar stendur einnig að samgrh. muni gera nánari grein fyrir þessum ákvörðunum.

Við 1. umr. spurði sá sem hér stendur eftir þeim áformum. Hvað á að skera niður og hvar á að draga úr framkvæmdum? Hæstv. samgrh. svaraði þá því til að fyrir 3. umr. mundi það liggja skýrt fyrir hvað hér væri um að ræða. Enn hafa ekki fengist svör og þrátt fyrir mjög gott samstarf við hv. formann fjárln. og þrátt fyrir ágreining um ýmis mál hefur ekki verið hægt að fá svör við þessum spurningum. Ég verð að spyrja forseta hvort hann geti gert ráðstafanir til þess að samgrh. verði látinn vita að við í minni hlutanum leggjum til að umræðunni verði frestað þar til klárlega liggur fyrir hvaða framkvæmdir eigi að skera niður.

(Forseti (ÍGP): Forseti mun verða við ósk hv. 5. þm. Vesturl. og koma þessum skilaboðum til hæstv. samgrh.)