Réttindagæsla fatlaðra

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 17:06:25 (2957)

2000-12-07 17:06:25# 126. lþ. 43.9 fundur 331. mál: #A réttindagæsla fatlaðra# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég er sammála þessu. Þrátt fyrir að við kjósum að skapa þannig umhverfi með lagasetningu að almenn lög umlyki öll réttindi og þarfir allra borgara, fatlaðra og ófatlaðra, þá er alveg ljóst að við getum ekki komið slíkum breytingum á öðruvísi en að tryggja öfluga réttargæslu fatlaðra við svo miklar breytingar.

Ég get ekki annað en nefnt það, herra forseti, að góð vinkona mín, fyrrum þingmaður okkar jafnaðarmanna, Ásta B. Þorsteinsdóttir, var afskaplega mikill talsmaður þess í baráttu sinni fyrir bættum hag fatlaðra að réttindagæsla yrði tryggð við þær breytingar sem áformaðar voru og sem við bjuggumst við að yrðu enn þá fyrr en raun ber vitni. Hún hafði mikla þekkingu á þeim málum og bar ótrauð þá þekkingu hingað inn. Ég ætla að leyfa mér að koma aðeins inn á þau atriði sem hún lagði áherslu á í ræðu sinni við umræðu um breytingar á lögum fatlaðra sem hæstv. félmrh. beitti sér fyrir fyrir um þremur árum.

Alls staðar í huga þeirra sem vinna með málefnum fatlaðra byggist hugsunin á grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna um jöfnun tækifæra og þeirri breyttu skilgreiningu á fötlun sem þessar grundvallarreglur í raun og veru birta, að misvægi sé á milli þess sem samfélagið býður manninum og möguleika fólks með fötlun til að nýta sér samfélagsleg úrræði. Þetta skiptist í fjóra meginflokka.

Forsendur fyrir fullri þátttöku er nauðsynlegur stuðningur, læknisfræðileg meðferð og umönnun og hæfing og endurhæfing. Þetta höfum við verið að ræða. Þetta tengist þeim frumvörpum sem við erum að fjalla um og félmn. hefur þegar fengið til meðferðar og mun fá með þeim þremur frumvörpum sem nú eru til umræðu.

Að beina sjónum að þeim þáttum í samfélaginu sem hafa grundvallarþýðingu fyrir lífsgæði fólks. Verið er að tala um aðgengi að samfélaginu, atvinnu, tekjur, félagslegt öryggi, fjölskyldulíf og mannlega reisn. Þarna getum við bent á með aðgengi að samfélaginu að liðveislan sem varð til í lögunum frá 1992 var feikilega mikilvæg. Það er sveitarfélaganna að inna af hendi þá liðveislu sem snýr að félagslega þættinum í lífi fólks. Hins vegar varðandi atvinnuna, þá erum við að tala um liðveislu sem nú verður tryggt með lögum að Vinnumálastofnun veiti.

Félagslegt öryggi. Það er auðvitað svo margt og ég ætla ekki, herra forseti, þó full ástæða væri til og þar sem þessi málaflokkur er mér hugleikinn að fara í djúpa umræðu bæði um húsnæðismál og annað þar sem ég er á mjög öndverðum meiði við ráðherrann í þeim lausnum sem hann velur. En þetta eru þeir þættir sem skipta máli fyrir fólk, atvinna, húsnæði, fjölskyldulíf, tekjur, aðgengi að samfélaginu, sama sem mannleg reisn. Þetta hyggjumst við tryggja með því að setja ákvæði í lög sem gera það unnt og helst tryggi að við virðum það að allir eigi rétt á mannlegri reisn hvort sem þeir búa við meðfædda fötlun eða fötlun vegna slysa eða veikinda og að lagalegur grundvöllur sé tryggður til að fólki með fötlun séu búin skilyrði til fullrar þátttöku og jafnra tækifæra. Þannig virðum við rétt hagsmunasamtaka fatlaðra til að hafa áhrif á ákvarðanir í málum þeirra á öllum stigum og í öllum málum sem þá varða. Þannig er samfélagið orðið eitt fyrir alla þegar allar stofnanir samfélagsins, umhverfi, atburðir, þekking og upplýsingar erum öllum aðgengilegar. Þetta er ekki orðið, herra forseti. Árið 2000 er þetta ekki orðið. En okkur hefur skilað nokkuð vel á veg. Og öll eigum við einhvern þátt í því að hafa hreyft við þeim málum og átt þátt í að þeim hefur þokað.

Ég hef nokkrum sinnum í umræðunni í dag vísað í lögin sem urðu til 1992 og mótuðu eiginlega þáttaskil í málefnum fatlaðra. Þá var í fyrsta sinn verið að taka alvarlegt skref í þá átt að stoðþjónusta yrði efld í staðinn fyrir stofnanaþjónustu. Nú finnst okkur í dag að eðlilegt og sjálfsagt sé að stóru stofnanirnar séu eiginlega aflagðar, hægt og sígandi verði þær verkefni gærdagsins þó að allnokkrar þeirra séu í góðri starfsemi í dag en hafi breytt hlutverki sínu þannig að þær eru miklu fremur samsafn nokkurra sambýla en stofnanir með þeirri uppbyggingu sem þekktist áður fyrr.

Þá komst það nýmæli í lög að fatlaðir fengu rétt til sjálfstæðrar búsetu með liðveislu og telja margir að þetta hafi verið hið mesta framfaraspor sem hefur verið stigið í málum þeirra og síðan þessi liðveisla til atvinnuþátttöku sem við höfum talað um.

En það er réttindagæslan sem er svo mikilvæg. Það er staðreynd og hefur oft verið bent á það, ekki síst af þeim þingmanni sem ég vísaði til áðan, að bakhliðin á yfirfærslu ríkis til sveitarfélaga hjá nágrannaþjóðum okkar var að ekki var tekið á réttindagæslunni. Við eigum að læra af því. Það var reynsla nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndunum að betra hefði verið að styrkja mun betur réttindagæslu og réttaröryggi fatlaðra áður en af tilfærslunni varð. Með því að gera það ekki varð vart við mismunun í þjónustu við fatlaða eftir sveitarfélögum. Og það sem meira var, reynsla þeirra varð einnig sú að ákveðin sérþekking og sérhæfing glataðist vegna þess að þekkingin dreifðist of mikið og nauðsynlegt væri að hafa ákveðna miðstýringu á ákveðnum þáttum í þjónustu við fatlaða og þá bæri að styrkja.

Ég lít svo á að með frv. um réttindagæslu fatlaðra sé verið að reyna að halda utan um þá miðstýringu og búa til þá tryggingu.

Bent hefur verið á um ákveðna hópa fatlaðra sem eru með svokallaðar fátíðar fatlanir og mjög fáir greinast með á hverju ári að mikilvægt er að þjónusta og þekking fyrir þessa hópa dreifist ekki of mikið þannig að hún hverfi og slíkur einstaklingur týnist eða skorti þá þjónustu sem hann á rétt á samkvæmt lögum.

Ég vil einnig taka fram, herra forseti, að á Norðurlöndunum hafa menn farið ólíkar leiðir til að tryggja þessa stöðu. Menn hafa t.d. í Danmörku komið á sérstakri jafnréttisstofnun til að vaka yfir réttindum og réttindagæslu á landsvísu á meðan í Svíþjóð, þar sem sama þróun átti sér stað, hefur verið stofnað embætti umboðsmanns fatlaðra.

[17:15]

Mér hefur fundist skorta á að þessi mál væru til lykta leidd. Ég tel mikilvægt að við ákveðum með hvaða hætti við tryggjum þessa þætti. Í frv. er talað um að skipa réttargæslumann fatlaðra til fjögurra ára. Hann á að hafa menntun á háskólastigi ásamt reynslu af málefnum fatlaðra og þekkingu á því sviði. Í 4. gr. er kveðið á um helstu verkefni þessa réttargæslumanns.

Mér finnst aðalathugasemdir Þroskahjálpar við þetta mál vera að menn óttist að einn réttargæslumaður sé of lítið, að tryggja þurfi að fatlaðir geti haft sérstakan trúnaðarmann. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að fara yfir athugasemdir Þorskahjálpar. Ég ætla ekki að lesa tillögurnar sem Þroskahjálp setur fram um viðkomandi greinar heldur tína til það sem veldur þeim áhyggjum. Þetta er stutt, herra forseti. Ég tel nokkuð víst að það lengi ekki um of þessa umræðu sem hefur farið ágætlega fram en reyndar eingöngu á milli mín hæstv. og félmrh.:

,,Landssamtökin Þroskahjálp telja að það sé eðlilegur réttur þeirra sem þess óska að geta fengið persónulegan talsmann til að aðstoða sig við að gæta réttar síns og hagsmuna.``

Þetta er náttúrlega ekki að finna í því frv. sem ráðherrann hefur lagt fram.

,,Svæðisbundnir trúnaðarmenn geta hentað vel þeim einstaklingum sem geta talað sínu máli sjálfir og eru meðvitaðir um rétt sinn. Skjólstæðingar Landssamtakanna Þroskahjálpar eru hins vegar einstaklingar sem vegna fötlunar sinnar þurfa mikinn stuðning við að þekkja rétt sinn og sækja hann.

Mjög mikilvægt er að í störf réttindagæslumanns veljist hæfur einstaklingur sem nýtur trausts fatlaðra og aðstandenda þeirra og um stöðu hans skapist almenn sátt. Gagnkvæmt traust á milli réttindagæslumanns og hagsmunasamtaka fatlaðra hlýtur að vera ein meginforsenda þess að hin nýja skipan mála sem hér um ræðir skili tilætluðum árangri.``

Samtökunum finnst mikilvægt að fatlaður einstaklingur eða forráðamaður fyrir hans hönd geti óskað eftir persónulegum talsmanni, hann geti sjálfur gert tillögu um hver skuli sinna því hlutverk eða óskað eftir að trúnaðarmaður hafi milligöngu um slíkt.

,,Trúnaðarmaður skal verða við ósk fatlaðra um persónulegan talsmann. Hafi hinn fatlaði tillögu um talsmann skal trúnaðarmaður kanna feril viðkomandi og tengsl hans við hinn fatlaða. Hafi hinn fatlaði ekki tillögu um persónulegan talsmann skal trúnaðarmaður finna honum talsmann í samvinnu við staðbundin hagsmunasamtök.``

Herra forseti. Ég er sammála þessu sjónarmiði Þroskahjálpar. Þegar þessi verkefni hafa verið flutt til sveitarfélaganna er mikilvægt að tryggja þessa réttindagæslu eins og unnt er. Ég geri mér grein fyrir því að hún mun kosta eitthvað. Það á samt ekki að ráða trúnaðarmenn heldur þarf einhvers staðar í félagsþjónustunni að vera skipaður trúnaðarmaður með þessu verkefni. Ef á þarf að halda þarf hann að geta útvegað fötluðum einstaklingi persónulegan réttindagæslumann. Við eigum náttúrlega að ganga út frá því að það gerist ekki svo oft að sífellt þurfi að leita til slíkra aðila eða verja stórfé til þess. Hins vegar er eðlilegt að kostnaður við réttindagæslumann, við trúnaðarmann og talsmenn sé greiddur af ríkissjóði. Mér finnst mikilvægt, herra forseti, að heyra sjónarmið hæstv. félmrh. varðandi það að félmn. skoði hvort á einhvern hátt sé unnt að koma til móts við þetta ákvæði sem Landssamtökin Þroskahjálp leggja jafnmikla áherslu á og raun ber vitni.

Af því væri ofboðslegur sparnaður, ef menn eru tilbúnir að líta á það þannig, að breyta skipan mála þannig að fatlaðir búi í samfélaginu sem líkast því sem gerist hjá ófötluðum, sér í íbúð á aðgengilegum sambýlum þannig að þörf á sérstofnunum fyrir fatlaða minnki. Slíkar stofnanir eru dýrar og þungar í rekstri. Þá þurfa fatlaðir hins vegar að fá þjónustu sem gerir þeim kleift að búa í heimabyggð sinni við aðstæður sem þeir ráða við. Ef við ætlum að gera breytingar í þá átt þá verðum við að líta svo á að aukin krafa um réttindagæslu sé eðlileg afleiðing og grundvöllur þessara breytinga.

Herra forseti. Ég tel að ég hafi komið á framfæri meginatriðunum varðandi matið á réttindagæslunni. Hún er grundvöllur þeirra breytinga sem við munum væntanlega ráðast í innan tíðar, að flytja málaflokk fatlaðra til sveitarfélaganna. Það er ljóst, herra forseti, að það gerist ekki nema mjög vel verði haldið á málum gagnvart sveitarfélögunum. Skoða þarf af sanngirni í hverju aukin útgjöld sveitarfélaganna við þennan tilflutning felast, hversu vel má treysta því að ríkið leggi fram sinn skerf og tryggi fjármagn, hvort heldur er til réttindagæslu eða liðveislu á vinnumarkaði. Tryggja þarf að nægilega mörg störf séu á Vinnumálastofnun til að koma fötluðum til vinnu á almennum vinnumarkaði.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar lögum hefur verið breytt þannig að áherslan er ekki lengur á verndaða vinnustaði heldur störf úti í samfélaginu þá verður það afdrifaríkt ef ekki fylgir með öll stoðþjónustan sem gerir það mögulegt.

Læt ég þar með ræðu minni lokið, herra forseti.