Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 17:49:53 (2964)

2000-12-07 17:49:53# 126. lþ. 43.10 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, GHall
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[17:49]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni hið merkasta mál sem auðvitað þarf brautargengi þrátt fyrir að menn hafi talað um að nóg væri komið af skattaálögum. Ég vil fyrst geta þess sem mér finnst hafa breyst nokkuð þegar litið er til athugasemda við frv. Þar er fjallað um hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra. Í athugasemdum segir, með leyfi forseta:

,,Úr Framkvæmdasjóði aldraðra eru m.a. veittir styrkir til bygginga þjónustumiðstöðva, dagvista og stofnana fyrir aldraða.``

Mér finnst eins og þarna hafi meginmarkmiðið breyst. Þegar Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður var meginhlutverk hans bygging hjúkrunarheimila fyrir aldraða eða vistheimili fyrir aldraða. Það þarf þó ekki að ráða öllu, þ.e. röðin á hlutverkum sjóðsins. Þegar litið er á athugasemdir með frv. kemur ýmislegt fleira í ljós. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á höfuðborgarsvæðinu bíða um 560 manns eftir vistrými, þar af eru um 230 manns í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými samkvæmt vistunarskrá sem byggð er á vistunarmati aldraðra. Brýnt er að hækka gjaldið svo að hægt verði að hraða uppbyggingu á þeim svæðum þar sem þörfin er mest.``

Hvað þýðir þetta, hæstv. heilbrrh.? Þýðir þetta að þeir sem hafa áhuga á að byggja hjúkrunarheimili fyrir aldraða verði að halda sig við kjördæmamörk? Það er ekki langt síðan ég sá svar frá heilbrrn. við áhuga ákveðinna aðila á að byggja við hjúkrunarheimili á Reykjanesi, nánar tiltekið í Hafnarfirði. Svarið var að þörfin væri engin þar heldur væri hún í Reykjavík. Mig langar til að spyrja hæstv. heilbrrh.: Eru mörkin alveg skýr af hálfu heilbrrn. varðandi uppbygginu vistrýma fyrir aldraða? Við vitum að margir Reykvíkingar búa á Kumbaravogi vegna þess að það er ekki pláss fyrir þá í Reykjavík. Hvað með t.d. Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem nú búa um 60 Reykvíkingar? Er það metið svo að ekki sé grundvöllur fyrir því að byggja hjúkrunarheimili, hvorki í Kópavogi, Garðabæ né Hafnarfirði þó þörfin fyrir úrræði sé mikil í Reykjavík?

Margir telja fýsilegt að byggja við Hrafnistu í Hafnarfirði vegna þess að þar eru allir þjónustuþættir til staðar. Bygging 90 rýma hjúkrunarálmu við Hrafnistu í Hafnarfirði mundi kosta tæpa 2/3 af byggingarkostnaði 90 rýma hjúkrunarálmu einnar og sér án stoðdeilda. Er ráðuneytið að horfa á hagkvæmni bygginga fyrir aldraða? Í ráðuneytinu segja menn: Við erum í hinum mesta vanda, verðum að auka nefskattinn og ná meiru í Framkvæmdasjóð aldraða til þess að byggja. En er hagkvæmnin þá í fyrirrúmi? Er litið til annarra kosta? Ég nefni þetta vegna þess að fyrir skömmu var veitt framkvæmda- og rekstrarleyfi, alla vega rekstrarleyfi, fyrir hjúkrunarheimili sem heitir Sóltún og þar stofnað fyrirtækið Öldungur. Það heimili stendur eitt og sér og við það þarf að byggja allar stoðdeildir. Á sama tíma voru aðrir tilbúnir til að byggja hjúkrunarheimili þar sem allar stoðdeildir voru fyrir.

Fari svo að þessi einkaframkvæmd, þ.e. rekstraraðilar Sóltúns sem þar hafa tekið að sér bæði byggingu og rekstur, sæki um styrk úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að byggja þjónustumiðstöð, er þá nokkuð sem bannar þeim það? Bannar þeim nokkur að sækja í Framkvæmdasjóð aldraðra til að gera góða byggingu enn betri? Þeir hafa fjármagnað hluta hennar og vantar eitthvað sem við á að éta og þá er leitað til Framkvæmdasjóðs aldaðra til að byggja þjónustumiðstöð. Þessir aðilar fá sérstaka greiðslu og einstaka frá ráðuneytinu vegna reksturs.

Ég tel að í þessu valdi nokkrum vanda, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á það einnig, sá málarekstur sem nú er kominn upp á milli heilbrrn. og Grundar. Vitað er að mörg hjúkrunarheimili hafa átt við rekstrarvanda að stríða og þurft að loka deildum vegna þess að fólk hefur ekki fengist til starfa. Í lögum um þau hjúkrunarheimili sem eru á föstum fjárlögum segir að þau geti lokað deildum vegna vöntunar á starfsfólki eða vegna breytinga. Hins vegar geta daggjaldastofnanir ekki gert hið sama. Það er alvarlegt mál út af fyrir sig. Ég veit að hæstv. heilbrrh. hefur unnið að því að skoða hvernig hjúkrunarheimili á föstum fjárlögum hafa hagað sér í þessu máli. En á sama tíma og mikill skortur er á hjúkrunarrými er þó nokkuð um að hér á höfuðborgarsvæðinu standi deildir auðar.

Ég vildi líka gjarnan fá svar frá hæstv. heilbrrh. við spurningunni: Hvað er höfuðborgarsvæðið? Þá kem ég að því sem ég var að spyrjast fyrir um áðan. Gætum við verið sammála um það að höfuðborgarsvæðið sé frá Mosfellsbæ til og með Hafnarfirði og allt þar á milli? Væri þá ekki eðlilegt að líta á málið í heild sinni, varðandi skort á hjúkrunarrými, hvort sem um væri að ræða Reykvíkinga, Kópavogsbúa, Mosfellinga eða Hafnfirðinga? Á þetta mætti horfa sem eina heild.

Ég vil líka geta þess að í lögum segir að Framkvæmdasjóður aldraðra eigi m.a. að greiða, með leyfi forseta:

,,Nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða.``

Ekki fyrir löngu var lögð fram skýrsla af hálfu embættismanna heilbrrn. sem höfðu farið vítt og breitt um landið og skoðað fasteignir þar sem aldraðir eru hýstir, þ.e. hjúkrunar- og vistheimili aldraðra. Þá kom í ljós að hið mesta ófremdarástand er varðandi viðhald þessara fasteigna. Daggjöldin duga ekki, tæplega fyrir rekstri og alls ekki fyrir viðhaldi. Í skýrslunni kom fram að hér væri stórt verkefni sem þyrfti að takast á við. Ég þori ekki að fara með upphæðina en mig minnir að hún hafi legið nálægt milljarði, þ.e. sá kostnaður sem fram undan er vegna viðhalds þessara fasteigna.

Ég ætla ekki að hafa orðin fleiri í þetta sinn, hæstv. forseti. Ég vil þó að lokum taka undir og benda á hina brýnu þörf sem er fyrir hjúkrunarrými og vísa þá til máls sem hér verður tekið upp undir næsta dagskrárlið, þ.e. heilbrigðisáætlunar til ársins 2010. Þar segir m.a. um eldri borgara, með leyfi forseta:

,,Bið eftir vistun á hjúkrunarheimili fyrir fólk sem er í mjög brýnni þörf verði ekki lengri en 90 dagar. Árið 1997 var meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými 267 dagar í Reykjavík.``

Ég verð að segja eins og er. Ég rengi þessa tölu og held að að meðaltali hafi það tekið lengri tíma en þarna er talað um. Fylgi einhver alvara þessari virðulegu bók --- einn hv. þm. tók þátt í nefndarstarfi um heilbrigðisáætlun til ársins 2010 --- og sé mönnum alvara með að stytta biðtímann þá er ljóst að byggja þarf nokkuð mörg hjúkrunarheimili á allra næstu árum til að við þetta verði staðið. Mér finnst hins vegar alvarlegast, þegar litið er á þennan texta, t.d. það sem sagt er um 90 daga bið, að hún verði ekki lengri, þegar sagt er að yfir 75% fólks 80 ára og eldra sé við svo góða heilsu að það geti með viðeigandi stuðningi búið heima. Hver ætlar að greiða þann þátt þjónustunnar? Er það Framkvæmdasjóður aldraðra eða hvaðan eiga þeir peningar að koma?

Ætlunin er einnig að draga úr tíðni mjaðma- og hryggbrota um 25% hjá eldri borgurum. Það á líka að stuðla að því að yfir 50% fólks á 65 ára og eldra hafi a.m.k. 20 tennur í biti. Þetta er allt gott og blessað. Skoði maður hins vegar hverjir umsagnaraðilar voru um þetta merka plagg þá kemur í ljós að 127 aðilar fengu það til umsagnar en ekki nema 14 skiluðu umsögn. Það er alvarlegast, það eru ekki nema 14 aðilar. Þegar litið er til þeirra sem fengu þessa ágætu stefnuyfirlýsingu í hendur og sáu ekki ástæðu til að skila inn umsögn um hana þá hvarflar að manni að þetta verði nokkuð erfiðara í framkvæmd en hér er sett fram.

Virðulegi forseti. Víkjum þá aftur að máli málanna, málefnum aldraðra sem frv. sem hér er til umræðu er hluti af. Í frv. segir að nauðsynlegt sé að ná meira fjármagni inn í Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er þá beinlínis afleiðing af þessari stefnumörkun. Ég spyr því hæstv. heilbrrh.: Hver er stefna heilbrrn. í málefnum aldraðra? Hvernig hefur heilbrrn. hagað stefnumótun sinni? Hver er stefnumótun heilbrrn.? Hver er framtíðarsýnin? Hvernig ætlar heilbrrn. að halda á þessum málum? (Gripið fram í: Selja ...) Mig minnir að ég hafi fengið bréf í mars 1996, frekar en 1997, frá heilbrrn. þar sem sagt var að þessi mál væru í mótun og yrði lokið í september það ár. Ég vona sannarlega að vel hafi verið tekið á því merka máli. Við verðum að gera kröfur um skýra stefnumótun, framtíðarsýn í heilbrrn. og gott innra starf eins og maður les um í öllum köflum hinnar merku heilbrigðis\-áætlunar, einkum í því sem lýtur að heilbrigðisstofnunum og stofnunum fyrir aldraða.