Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 18:35:28 (2974)

2000-12-07 18:35:28# 126. lþ. 43.10 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[18:35]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er óskandi að öll áhersla verði lögð á að sinna þessari brýnu þörf. Vissulega er það rétt að áherslurnar hafa heilmikið breyst og þörfin eykst í þessum málaflokki en ég held að menn hafi samt vitað það þegar þeir fóru af stað fyrir 20 árum. Það er nokkuð sem við höfum séð fyrir nokkuð lengi að þörfin muni aukast. Ef ég man umræðuna rétt þá held ég að það hafi verið þannig að þetta hafi átt að vera í sérstökum undantekningartilvikum. Það er hreinlega spurning, ef svo hefur verið, hvort ekki sé ástæða til að breyta lögunum ef menn ætla sér að gera það og ætla sér að verja hærra hlutfalli af fjármunum sjóðsins í rekstur vegna þess að þegar farið var af stað á sínum tíma var hugsunin væntanlega sú að þetta væri notað til uppbyggingarinnar sem menn sáu fram á að þörf væri fyrir en að reksturinn væri tekinn úr ríkissjóði. Ég held að það sé mjög tímabært að fara mjög ofan í kjölinn á þessum ákvæðum og velta því fyrir sér hvert við erum að stefna í þessum efnum vegna þess að þörfin er mjög brýn. Fjármunirnir hafa verið notaðir í annað en til var ætlast á sínum tíma og það er ekki alveg nógu góð latína að mínu mati, herra forseti.