Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 19:13:47 (2980)

2000-12-07 19:13:47# 126. lþ. 43.11 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[19:13]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Ég hef áhuga á að ræða ögn meira sérstaklega þau atriði sem hafa komið til umræðu í dag, ekki bara í morgun heldur einnig í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar undir síðasta lið, þ.e. um fjármögnun í heilbrigðisþjónustu, einkarekstur og einkavæðingu. Þá langaði mig sérstaklega til þess að fjalla um það sem snýr að þeim þáttum sem koma fram í heilbrigðisáætlun og vísa ögn til þeirrar stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur markað sér. Jafnframt langaði mig aðeins að lýsa hugmyndum mínum um einkavæðingu á þeim fáu mínútum sem ég hef vegna þess að ég tel að orðin einkavæðing, einkarekstur og slíkt séu ekki vel skilgreind. Ég tel að í hugum fólks, sérstaklega hv. þingmanna, hafi þau mismunandi merkingu. Ég varð vör við það sérstaklega í umræðunni í morgun að hugtökin höfðu mismunandi merkingu eftir því hver talaði.

Í kaflanum Fjármögnun heilbrigðisþjónustu á bls. 45 í Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er verið að ræða um Evrópumarkmiðin og þau taka til allra Evrópuríkja sem eiga aðild að Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

[19:15]

,,Meðal aðildarríkjanna er samstaða um að fjármögnun heilbrigðisþjónustu verði að byggjast á jafnræði og stöðugleika. Óháð fyrirkomulagi fjármögnunar í hverju ríki fyrir sig verða ríkisstjórnir að tryggja að heilbrigðisþjónustan nái til allra og að þeim sé tryggður aðgangur, auk þess sem hafa verður stjórn á þróun útgjalda.

Þjónustusamningar eru taldir áhugaverður kostur í stað hefðbundinnar fjármálastjórnar heilbrigðismála. Í þjónustusamningum verður að skilgreina ákveðnar kröfur og skyldur veitenda þjónustunnar og tryggja þeim umbun ef þeir rækja störf sín vel og á árangursríkan hátt. Í heilbrigðiskerfi sem kostað er af skattfé borgaranna eru helstu kostir samningsstjórnunar taldir vera: aukin valddreifing, árangursríkari starfsemi, betri áætlanagerð, betri stjórnun.

Jafnframt geta þjónustusamningar stuðlað að jafnræði til heilbrigðis, sé þeim beitt þannig að þeir tryggi að hópar sem búa við lélegar aðstæður og hafa mikla þjónustuþörf fái þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda.``

Síðan er vikið að Íslandi og þar segir:

,,Á Íslandi er samstaða um að heilbrigðisþjónustan sé að mestu leyti kostuð af almannafé.``

Ég tek undir þetta. Það eru þau markmið sem við höfum sett okkur að heilbrigðisþjónustan sé að mestu kostuð af almannafé. Hún er kostuð af almannafé upp að um það bil 85% marki. Undanfarin ár og jafnvel áratug hefur heilbrigðisþjónustan verið kostuð beint úr vasa almennings, þ.e. ekki í gegnum skattana, sem nemur um 15%. Það hefur verið stöðugt og ekki verið áætlanir um að auka beina kostnaðarhlutdeild almennings.

En hvað eigum við þá við með einkavæðingu? Hvað er einkavæðing í mínum huga? Mig langar að segja frá því í nokkrum orðum. Ég tel að hv. þm. séu fremur sammála en ósammála í þessum efnum. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á það, þegar ég tala um einkavæðingu, að samstaða sé um að heilbrigðisþjónuta sé samfélagsleg þjónusta sem að mestu sé kostuð af opinberu fé. Þetta er tilraun til að koma markaðsöflum inn í heilbrigðisþjónustuna án þess að ábyrgð samfélagsins á að tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir almenning sé skert. Aðskilnaður milli kaupenda og seljenda heilbrigðisþjónustu hefur verið íhugaður. Það er ekki sami aðili sem kaupir þjónustuna og veitir þjónustuna. Í raun má segja að eins og þjónustusamningar innan heilbrigðisþjónustunnar eru tíðkaðir nú í dag þá hafi heilbrigðisyfirvöld gert þjónustusamninga við ríkisstofnanir. Ég sé ekki eðlismun á því að slíkur samningur sé gerður við einkaaðila. Þar er þjónustan og gæði hennar skilgreind og auk þess kostnaðurinn við þjónustuna. Ég sé ekki mun á því að gera slíka þjónustusamninga við einkaaðila annars vegar og ríkisstofnun hins vegar, svo framarlega sem við erum sammála um að þjónustan sé kostuð af almannafé.

Í löndunum í kringum okkur eru ýmsir aðilar kaupendur að þjónustunni fyrir hönd sjúklinga. Ýmist eru það ríkið, sjúkrasjóðir eða tryggingafyrirtæki eins og t.d. í Þýskalandi eða Austurríki eða heimilislæknar líkt og tíðkast t.d. í Bretlandi. Seljendur þjónustunnar eru sem sagt heilbrigðisstofnanir sem bjóða upp á tiltekna skilgreinda þjónustu. Með því að aðgreina kaupanda og seljanda að þjónustunni þá er einkaaðilum, fagfólki eða rekstraraðilum, falin ábyrgð á rekstri tiltekinna þátta í heilbrigðisþjónustunni.

Ég tel að með þessum aðferðum sé hægt að fá meira út úr þeim peningum sem við leggjum til heilbrigðisþjónustunnar. Ég hef kynnt mér þróun mála í Evrópu á síðustu árum. Þar hafa verið gerðar ýmsar tilraunir og kannski má segja að þær eigi það sammerkt að hafa verið í stöðugri þróun. Menn hafa skoðað hugmyndir um kaupendur og seljendur þjónustu og frekar færst á átt til þess sem kemur fram í heilbrigðisáætlun og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, þ.e. langtímasamninga og þjónustusamninga.

Þær jákvæðu breytingar sem þessar skipulagsbreytingar hafa haft eru m.a. betri skilgreiningar á pólitískri og stjórnunarlegri ábyrgð og þær hafa leitt til þess að nútímalegir stjórnunarhættir hafa verið innleiddir í heilbrigðisstofnanir. Ég tel fulla þörf á að taka þannig á rekstri stofnana að þær séu reknar eins og hver önnur fyrirtæki út frá fjárhagslegu sjónarmiði. Heilbrigðisstofnanir eru að vissu leyti ekki eins og hver önnur fyrirtæki en þó er hægt að innleiða þar ákveðna stjórnunarhætti sem við getum lært af markaðinum. Slíkt leiðir jafnframt til þess að betur er skilgreint hvaða þjónusta er veitt og hvað hún kostar.

Þegar rætt hefur verið um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni finnst mér sá misskilningur oft koma upp að einkareksturinn sé eins og í hinu ameríska kerfi þar einstaklingurinn þarf að leggja meira fram úr eigin vasa til að borga þjónustuna. Málið snýst hins vegar ekki um það. Hugmyndir um einkarekstur í íslenska heilbrigðiskerfinu hafa verið á þeim nótum sem ég hef verið að lýsa. Ég vonast til að útlistanir mínar skýri í einhverju þær hugmyndir sem eru í gangi.