Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 19:22:05 (2981)

2000-12-07 19:22:05# 126. lþ. 43.11 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[19:22]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það væri í sjálfu sér skynsamlegt að fara út í langa og ítarlega umræðu um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og um hvað slíkt mundi snúast. Það var ágætt að hv. þm. skyldi koma að því í þessari umræðu en ég gerði tilraun til að fjalla sama mál áðan.

Hvað þýðir einkavæðing í heilbrigðiskerfinu í raun og veru? Þýðir hún minni útgjöld ríkisins á hagræðingu? Ég segi: Nei, það er ekkert sem sýnir fram á það. Þýðir hún betri þjónustu? Hugsanlega en ekki endilega. Þýðir hún betri nýtingu tækja og fjármagns? Ég held að svo sé ekki. Það hefur meira að segja verið sýnt fram á það mjög víða, mjög margir sem hafa sýnt fram á það í greinaskrifum og annars staðar, að þar á milli er ekki endilega samhengi þó þeir sem vilja koma á aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu haldi því fram.

Varðandi heilbrigðisstofnanirnar þá er ljóst, og alveg rétt sem hv. þm. Ásta Möller sagði hér áðan, að þær geta lært ýmislegt af markaðnum varðandi stjórn fyrirtækja og stofnana. Þar er greinilega mikið verk óunnið. Við verðum samt sem áður að hafa það í huga að heilbrigðisstofnanir eru ekki eins og venjuleg fyrirtæki. Þær lúta ekki sömu lögmálum og fyrirtæki á markaði. Þær lúta ekki lögmálum framboðs og eftirspurnar af ástæðum sem við höfum margoft farið yfir í þessum ræðustól. Ég veit að hv. þm. Ásta Möller tekur undir það með mér að þetta eru ekki eins og venjuleg fyrirtæki. Þess vegna er mjög erfitt að nota þá röksemdafærslu að hið sama eigi við í heilbrigðisstofnunum og í almennum fyrirtækjum á markaði. Þar er umhverfið allt annað og við getum í mjög takmörkuðum mæli, a.m.k. hvað varðar grunnheilbrigðisþjónustu, fært almenn markaðslögmál yfir á heilbrigðisstofnanir.