Tollalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 19:45:36 (2988)

2000-12-07 19:45:36# 126. lþ. 43.12 fundur 333. mál: #A tollalög# (ríkistollstjóri) frv. 155/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[19:45]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Tilgangurinn með þessu frv. er að nýta betur fjármagn og mannafla sem varið er til tollamála. Við teljum að nýta megi betur þá fjármuni og þann mannafla með skipulagsbreytingunni sem hér er lögð til.

Ég hef kynnt þetta fyrir starfsfólkinu sem er rúmlega 20 manns. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þörf verði fyrir starfskrafta þeirra allra og sérhæfingu eftir þessa skipulagsbreytingu vegna þess að þeim verkefnum sem þarna er sinnt, þarf að sinna áfram. Það verður ýmist gert í ráðuneytinu eða á vettvangi tollstjórans í Reykjavík, sem fór reyndar áður með mikið af þessum verkefnum. Ég hef gert starfsfólkinu ítarlega grein fyrir þessu á fundi sem ég bað um áður en frv. var kynnt opinberlega.

Að því er varðar þjónustuna við almenning þá á almenningur yfirleitt ekki erindi við embætti ríkistollstjóra. Þeim mun fleiri eiga erindi við embætti tollstjórans í Reykjavík sem og sýslumennina úti um land, sem eru tollstjórar. Hins vegar er ekki hægt að líkja tollstjóranum í Reykjavík saman við sýslumenn úti á landi. Þeir sinna ýmsum verkefnum en hann er sérhæft embætti sem fjallar um tollheimtu, tollgæslu og tolleftirlit á hans yfirráðasvæði. Um það svæði fara á milli 80 og 90% alls innflutnings til landsins auk þess sem embættið er stærsti innheimtuaðili ríkissjóðs að því er varðar opinber gjöld.