Tollalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 20:12:23 (2993)

2000-12-07 20:12:23# 126. lþ. 43.12 fundur 333. mál: #A tollalög# (ríkistollstjóri) frv. 155/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[20:12]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og viðbrögð við hugleiðingum mínum. Eins og ég sagði var ég ekki að boða neina andstöðu við frv. en hins vegar vakna ýmsar spurningar í tengslum við það og ég virði það við ráðherra að hann hefur svarað þeim og ýmsu af því sem ég kom inn á málefnalega.

Það er alveg ljóst að með þessu er ekki verið að færa verkefni frá landsbyggðinni og undir þessi embætti hér, það er fyrst og fremst verið að flytja til störf í Reykjavík. En spurningin er kannski meira sú hvort þær breytingar séu líklegar til að vera hluti af þróun og stuðla að þróun sem smátt og smátt færi þetta allt á einn stað. Þar held ég að sé fullkomlega ástæða til að vera á verði.

Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hann teldi það ekki í grundvallaratriðum rétta stefnu að vera að draga verkefni til baka undir ráðuneyti sem þaðan hefðu verið flutt. Þá erum við hæstv. ráðherra líklega sammála um að ráðuneytin eigi ekki að tútna út heldur eigi þau fremur að vera fámenn og viðbragðssnögg yfirstjórn í málaflokknum og þá sé, þegar umfang verkefnanna kallar á það, betra að byggja á sjálfstæðum stjórnsýslu- og framkvæmdastofnunum sem heyri undir ráðuneytin en þenja þau út og gera þau að mörg hundruð manna batteríum. Þetta eru í grundvallaratriðum þær tvær leiðir sem menn eiga oft um að velja. Íslenska Stjórnarráðið og skipan mála hér er reyndar býsna misjöfn hvað þetta varðar. Í sumum málaflokkum eru ráðuneytin mjög stór og hafa engar sérstakar undirstofnanir, eins og heilbrrn. er dæmi um, en í öðrum tilvikum eru ráðuneytin lítil, viðbragðssnögg, en byggja á stofnunum. Ég er að mörgu leyti miklu hrifnari af þeim hlutum.

Ekki verið að færa eftirlitshlutverkið inn í ráðuneytið, gott og vel, bara eftirlitshlutverkið, ekki úrskurðina, ég tek það gilt og það er til bóta. Ég held að þeir hefðu allra síst átt erindi þangað aftur en það má líka spyrja hvort eftirlitið eigi að færast þangað þó svo að ráðherra sé yfirmaður málaflokksins. Ekki fer ráðherra að standa sjálfur í eftirlitinu, eða hvað?