Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 20:16:43 (2995)

2000-12-07 20:16:43# 126. lþ. 43.15 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[20:16]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta og hv. þm. fyrir að sýna mér þá tillitssemi að leyfa mér að mæla fyrir þessu máli nú þegar í raun átti að vera búið að slíta fundi. Ég hef þá framsöguræðu mína um málið.

Hér er um að ræða frv. til laga um breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi sem er á þskj. 402 og er 320. mál þingsins.

Þann 22. mars 1999 voru samþykkt lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999. Fljótlega eftir samþykkt laganna gerði Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, athugasemdir við tiltekin atriði þeirra þar sem m.a. kom fram að stofnunin teldi að þau stönguðust á við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins.

Að ósk ESA féllust íslensk stjórnvöld á það að bíða með að hefja endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á grundvelli laganna þangað til niðurstaða væri fengin í athugun stofnunarinnar á ákvæðum þeirra.

Áður en ég fjalla um athugasemdir ESA og hvernig íslensk stjórnvöld hafa með frv. þessu brugðist við þeim vil ég, herra forseti, rifja upp tilurð þess að stjórnvöld ákváðu á sínum tíma að efla innlenda kvikmyndagerð með tímabundnum endurgreiðslum á hluta framleiðslukostnaðar.

Frv. það sem varð að lögum nr. 43/1999 var afrakstur starfs nefndar sem skipuð var af iðnrh. þann 14. okt. 1998. Nefndin hafði fengið það hlutverk að fjalla um og gera tillögur um aðgerðir stjórnvalda til að efla kvikmyndaiðnað á Íslandi og laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn. Gerði hún þá tillögu að komið yrði á fót sérstöku hvatakerfi þannig að fyrir fram ákveðið hlutfall framleiðslukostnaðar sem til félli hér á landi við gerð kvikmyndar yrði endurgreitt þegar framleiðslu væri lokið. Endurgreiðslukerfi sem þetta hefði þá kosti að vera einfalt og gagnsætt, það þjónaði jafnt innlendum sem erlendum kvikmyndaframleiðendum, það hvetti til uppbyggingar atvinnugreinarinnar og væri til þess fallið að efla innlenda kvikmyndagerð samfara því að erlend fyrirtæki sæju sér hag í starfsemi hér á landi og væri einfaldara en ýmiss konar skattaívilnanir sem erfitt kynni að vera að fylgja eftir í framkvæmd.

ESA gerði formlegar athugasemdir við fjögur atriði í lögunum.

Í fyrsta lagi taldi stofnunin að lögin væru ekki nægilega markviss hvað varðaði menningarlega skírskotun, þ.e. að markmið laganna hvað varðaði eflingu kvikmyndagerðar sem listrænnar iðju kæmi ekki nógu skýrt fram.

Í öðru lagi taldi hún skorta rök fyrir því að endurgreiðsla skyldi nema mishárri hlutfallstölu eftir upphæð framleiðslukostnaðar, svo og að framleiðsla sem næði ekki ákveðinni lágmarksupphæð ætti ekki að njóta endurgreiðslu.

Í þriðja lagi taldi stofnunin að lögin samrýmdust ekki meginreglu EES-samningsins um frjáls þjónustuviðskipti þar sem skilyrði endurgreiðslu sé bundið við þann kostnað sem eingöngu falli til á Íslandi.

Í fjórða lagi gagnrýndi ESA þann áskilnað að stofna þyrfti íslenskan lögaðila utan um hverja framleiðslu til að njóta endurgreiðslu.

Í því frv. sem nú er lagt fram er gert ráð fyrir að stuðningshlutfallið, 12%, verð fastsett án tillits til heildarframleiðslukostnaðar. Þannig verði ekki um neina mismunun að ræða eftir kostnaði. Til þess hins vegar að tryggja það að um raunverulegt verkefni sé að ræða sem komi íslenskri menningu, landslagi eða sögu á framfæri er nú áskilið að fyrir liggi að um sé að ræða framleiðslu sem fari í almenna dreifingu. Þannig er ekki gert ráð fyrir að upptökur af einstökum atburðum, framleiðsla sem einkum er ætluð til sýningar í eigin dreifikerfi eða svokallaðar stuttmyndir svo dæmi sé tekið, hljóti endurgreiðslu.

Er ég þá komin að þeirri athugasemd ESA sem snýr að framleiðslukostnaði á hinu Evrópska efnahagssvæði. Í lögunum er gert ráð fyrir að aðeins sá kostnaður sem til fellur hér á landi skuli tekinn með við útreikning á endurgreiðslu framleiðslukostnaðar. Var það álit ESA að slík ákvæði samrýmdust ekki meginreglu EES-samningsins um frjáls þjónustuviðskipti. Slíkar takmarkanir virki sem hömlur á að endurgreiðsluþegi geti átt viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. fyrirheit um endurgreiðslu beini viðskiptum frá öðru EES-ríki og til Íslands og skekki með því samkeppni innan EES-svæðisins. Í niðurstöðu ESA kemur fram að ef meira en 80% af framleiðslukostnaði fellur til hér á landi verði endurgreiðslan að reiknast úr frá heildarframleiðslukostnaði þar eð allt að 20% endurgreiðanlegs kostnaðar eigi að geta fallið til í öðru EES-ríki. Á hinn bóginn tekur ESA sérstaklega fram að ef lægra hlutfall kostnaðar, þ.e. 80% eða lægra, fellur til hér á landi þá verði íslenskum stjórnvöldum heimilt við endurgreiðslu að taka einvörðungu tillit til þess kostnaðar er fellur til hér á landi.

Nauðsynlegt er að hafa í huga að ESA byggir athugasemdir sínar á túlkunum sem framkvæmdastjórn ESB hefur beitt gagnvart aðildarríkjum ESB í sambærilegum tilvikum. Þessar túlkanir lágu ekki nema að takmörkuðu leyti fyrir þegar nefnd sú er samdi upphaflega frv. var að störfum. Það er því ekki hægt að segja að um handvömm frumvarpshöfunda hafi verið að ræða á þeim tíma.

Þá gerir frv. einnig ráð fyrir því að breytt sé því ákvæði í lögunum að íslenskur kvikmyndaframleiðandi sem hlotið hafi styrk úr Kvikmyndasjóði skuli útilokaður frá þeim möguleika að hljóta endurgreiðslu framleiðslukostnaðar. Er þetta í samræmi við ábendingar og óskir kvikmyndagerðarmanna. Frv. gerir ráð fyrir að fenginn styrkur frá Kvikmyndasjóði skuli dreginn frá innlendum framleiðslukostnaði áður en endurgreiðsla er reiknuð. Sá varnagli er einnig sleginn að samanlagður styrkur og endurgreiðsla skuli þó aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur helmingi framleiðslukostnaðar.

Að lokum tel ég rétt, herra forseti, að gera örlitla grein fyrir fjárhagslegri hlið frv. Eins og áður hefur komið fram hafa þau ákvæði laganna sem heimila ráðherra að endurgreiða tiltekið hlutfall framleiðslukostnaðar ekki verið látin koma til framkvæmda. Á fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir 50 millj. kr. til endurgreiðslna framleiðslukostnaðar sem færast yfir á næsta ár. Margir þættir aðrir en beinar stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa áhrif á hvort kvikmyndaframleiðendur ráðast í gerð kvikmynda hér á landi. Það verður því að viðurkennast að stjórnvöld eru ekki vel í stakk búin til að áætla með neinni vissu hver verði fjöldi umsókna um endurgreiðslu né hvert kunni að vera umfang og kostnaður viðkomandi framleiðslu. Ræðst slíkt alfarið af frumkvæði og áræðni kvikmyndagerðarmanna.

Frv. gerir ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið á um heimild ráðherra til að fresta samþykktum endurgreiðslum í heild eða að hluta til á milli fjárlagaára. Er þetta ákvæði nauðsynlegt til að tryggja að stjórnvöld hafi svigrúm til að haga endurgreiðslum í samræmi við samþykktar fjárheimildir hverju sinni.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn. Alþingis.