Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 20:24:56 (2996)

2000-12-07 20:24:56# 126. lþ. 43.15 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[20:24]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Fyrr í dag ræddum við m.a. frv. til laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa en í þeirri umræðu bar einmitt á góma ákúrur frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sem hafði gert athugasemdir við framkvæmd tilskipunarinnar sem þau lög er vörðuðu menningarverðmæti og flutning þeirra úr landi byggðu á. Hér höfum við til umfjöllunar annað frv. sem komið er til vegna ákúrna sem við höfum fengið frá sömu eftirlitsstofnun og í báðum tilvikunum er um að ræða flumbrugang og fljótaskrift frumvarpa frá ríkisstjórninni.

Það má rifja upp, herra forseti, að þegar fyrra frv. fór í gegnum Alþingi, 123. löggjafarþing, þá leið einn dagur frá því að því var vísað til nefndar, iðnn., þangað til það var komið til afgreiðslu þingsins. Ég sé ekki betur en að 1. umr. um frv. hafi farið fram þann 8. mars og ég sé ekki betur en að það sé samþykkt sem lög frá Alþingi þann 11. mars.

Herra forseti. Í umræðu um mál af þessu tagi hefur stjórnarandstaðan ævinlega varað við fljótaskrift sem þessari, m.a. vegna þess að við erum að hluta til undir eftirlit Eftirlitsstofnunar ESA sett. Og ákúrurnar sem við höfum fengið upp á síðkastið eru orðnar svo margar, herra forseti, að við erum komin í næstneðsta sæti á þeim lista sem gefinn er út yfir það hvernig löndunum í Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu tekst að lögleiða Evróputilskipanir sem þau eiga að gera. Að Ísland skuli vera næstneðst á þessum lista, eina landið sem er fyrir neðan okkur eru Grikkir, segir náttúrlega sína sögu bæði um vinnubrögðin á Alþingi og um það hvernig stjórnvöld eru í stakk búin til að takast á við að lögleiða þær tilskipanir sem við þó höfum undirgengist.

Herra forseti. Brýnt er að hér verði tekin upp önnur vinnubrögð. Í þessu tilfelli er greinilega ekki verið að gera það því hér er verið að flytja málið löngu eftir að fundi átti að vera slitið vegna þess --- ég vona að hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni hafi ekki orðið svo mikið um eitthvað sem ég var að segja að hann hafi ... (EMS: Klukkan er orðin svo margt.) Já, herra forseti, klukkan er orðin margt og fundinum hefði átt að vera slitið fyrir löngu en hér er um ámælisverðan flumbrugang ríkisstjórnarinnar að ræða, hér á að koma í gegn á handahlaupum frv. til laga um breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Herra forseti. Ég verð að segja að breytingarnar sem gerðar eru á þessum lögum frá því sem var í hinum flumbruganginum eru umtalsverðar. En ég get þó ekki orða bundist því að ég er hrædd um að hér sé að hluta til verið að koma sams konar ákvæðum áfram en undir einhvers konar orðalagsbreytingu sem gæti gengið í augun á Eftirlitsstofnun EFTA.

Ég spyr hæstv. iðnrh.: Hvernig stendur á því að enn stendur í frv. --- verið er tala um endurgreiðslu í 2. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi.``

Herra forseti. Hér er ekki um neina endurgreiðslu að ræða því að í tilfelli endurgreiðslna þá er það auðvitað einhver peningur sem hefur trúlega gengið inn í ríkissjóð og er endurgreiddur til baka úr ríkissjóði. Ekki er um slíkt að ræða. Um er að ræða allan framleiðslukostnað eða þ.e. 80% af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar ef hann fellur til á Íslandi og hér er átt við allan framleiðslukostnað sem hefur verið greiddur í landinu, þ.e. laun, matur eða bílaleigukostnað eða hvað svo sem er annað. Hér er því ekki um að ræða endurgreiðslu úr ríkissjóði eins og orðanna hljóðan virðist gefa til kynna, því með þessum framleiðslukostnaði er átt við allan kostnað sem til fellur hér á landi og hefur verið greiddur hverjum sem er, kostnaður sem heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, eins og segir í frv. Mér finnst því enn vera villandi orðalag í 2. gr. á ferðinni. Þetta atriði var gagnrýnt þegar lögin komu fram í fyrsta skipti og það ber að gagnrýna þetta aftur því að ekki hefur orðið breyting á.

[20:30]

Þegar hæstv. fyrrv. iðnrh. flutti þetta mál hér á sínum tíma í mars 1999 var það alveg ljóst og engin fjöður var dregin yfir það að aðgerðirnar ættu að auka áhuga erlendra kvikmyndaframleiðenda eða kvikmyndafyrirtækja á starfsemi hér á landi og að aukin útgjöld ríkissjóðs vegna aðgerðanna ættu að taka mið af auknum tekjum. Talað var um að aðgerðirnar væru einfaldar og gagnsæjar og það ætti að gæta fyllsta jafnræðis við stuðning stjórnvalda við fyrirtæki í greininni og jafnframt að þær ættu að efla innlendan kvikmyndaiðnað.

Hæstv. fyrrv. iðnrh. Finnur Ingólfsson sem fylgdi þessu máli úr hlaði var spurður um það á hvern hátt þessi lög gætu stutt innlendan kvikmyndaiðnað en fátt var um svör því í öllu hans máli kom fram að það átti að hygla stórum erlendum kvikmyndaframleiðendum.

Nú vil ég spyrja hæstv. iðnrh. sams konar spurninga: Að hvaða marki gilda ákvæði þessa frv. um íslenska aðila? Á hvern hátt rökstyður hæstv. iðnrh. það að hér sé um stuðning til innlendrar kvikmyndaframleiðslu að ræða?

Það verður alls ekki gagnsætt af þessu frv. sem er enda einhvern veginn klæðskerasniðið upp úr gamalli flík og virðist alls ekki passa því sem hér er um að ræða. Því þarf að fá svar við því að hvaða marki ákvæði þessa frv. gildi um íslenska kvikmyndagerð.

Í ljós kemur að það er álit ESA að menningarlega skírskotun hafi vantað í lögin. Og í máli hæstv. iðnrh. kemur fram að nú geri frv. ráð fyrir því að ákveðin endurgreiðslunefnd þriggja eða fjögurra manna eigi að gæta að því að um menningarlega skírskotun verði að ræða. Nú vil ég segja, herra forseti, að vegna þess að hér er menningarlegt hlutverk orðið jafnviðamikið í frv. og raun ber vitni að mér finnst í alla staði eðlilegt að því sé vísað til tveggja nefnda, þ.e. hv. iðnn., ef það má fella þetta undir kvikmyndaiðnað sem ég ætla ekkert að deila um, en það er alveg sjálfsagt að málið verði sömuleiðis sent til hv. menntmrn. því hér á greinilega líka að reyna að færa þetta undir ákveðið menningarhlutverk. Því er ekki eðlilegt að láta einungis iðnn. þingsins fjalla um þetta mál. (KHG: Hvor nefndin á að afgreiða málið?) Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur áhuga á því að vita hvor nefndin ætti að afgreiða málið. Það hefur tíðkast hér, herra forseti, að nefndir sendi sín í milli óskir um umsagnir. Hvaða framgangsmáti verður hafður á því skiptir ekki meginmáli, en það er afar mikilvægt að menntmn. fái málið til umsagnar.

Rót málsins eins og það lá fyrir á þinginu 1999 var sú að það ætti að laða erlenda kvikmyndagerðarmenn hingað til lands. Það virðist nú breytt. Þó er það engu að síður mjög erfitt að sjá hvernig þetta á að styðja við bakið á innlendri kvikmyndagerð og fengur væri að því hér við 1. umr. að fá hæstv. iðnrh. til að lýsa því nánar.