Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 20:41:24 (2999)

2000-12-07 20:41:24# 126. lþ. 43.15 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[20:41]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í greinargerðinni um 2. gr. kemur fram dæmi um það hvernig endurgreiðslum skuli háttað og ég vísa hv. þm. á það ákvæði til skýringar. (KolH: Ég er búin að lesa það.) Ég tel að frv., verði það að lögum, sé einmitt alveg sérstaklega hagstætt íslenskum kvikmyndaframleiðendum. Ég veit reyndar að ýmislegt er í pípunum og ýmsir aðilar eru nánast að bíða eftir því að þessi lög verði sett á Alþingi þannig að þessar endurgreiðslur geti hafist.

Auðvitað eru þetta endurgreiðslur vegna þess að bara virðisaukaskatturinn er nú dálítið hærri en 12%. Ætli hann sé nú ekki helmingi hærri. Ef ríkið greiðir því til baka 12% af framleiðslukostnaði þá er það ekki nema helmingurinn af virðisaukaskattinum sem ríkissjóður hefur fengið vegna þessarar starfsemi hér á landi, auk ótal annarra liða sem að sjálfsögðu skapa tekjur fyrir ríkissjóð, laun einstaklinga út um allt land vonandi, sem skattar eru greiddir af. Ég tel því að það sé slíkur fengur fyrir ríkissjóð að setja lög sem þessi, og ekki síst núna þegar við vitum að viðskiptahallinn er algjörlega óviðunandi, að ég hefði í sjálfu sér mælt með því og hefði gjarnan viljað hafa upphæðina á fjárlögum miklu hærri því ég hef trú á því að um verulega starfsemi muni verða að ræða hér á landi í framhaldi af setningu þessara laga.