Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 20:46:38 (3002)

2000-12-07 20:46:38# 126. lþ. 43.15 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[20:46]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég get alls ekki skilið við þetta mál hér og nú þar sem hæstv. ráðherra heldur því fram að ég sé ekki jákvæð í garð stuðnings við íslenska kvikmyndagerð. Ég er svo sannarlega jákvæð hvað varðar allan stuðning við alla lista- og menningarstarfsemi í landinu og það veit hæstv. viðskrh. alveg jafn vel og aðrir þm. hv. sem sitja í þessum sal.

Ég tel hins vegar ámælisvert að færa fram frv. af þessu tagi án þess að gefa þinginu og nefndum þingsins eðlilegt svigrúm til þess að ræða málin ofan í kjölinn og finna þær leiðir sem vinna best fyrir innlenda kvikmyndagerð hér á landi. Enn þá finnst mér markmið hæstv. ráðherra vera það að laða til landsins erlenda kvikmyndaframleiðendur.

Ég get ekki orða bundist vegna þess að erlendir kvikmyndaframleiðendur, ég tala nú ekki um stórir erlendir kvikmyndaframleiðendur, eru að framleiða bíómyndir sem kosta fleiri tugi milljarða kr. og þeir þurfa kannski ekki að framleiða mjög margar mínútur í mynd á Íslandi til þess að endurgreiðsla okkar verði kannski miklu meiri en þær 450 millj. sem fjmrn. gerir ráð fyrir að þurfi að endurgreiða á ári varðandi verkefni sem hér gætu komið upp. Ég held að fjármálaáætlunin varðandi þetta dæmi þarfnist líka lengri tíma og betri skoðunar.

Ég get ekki annað en haldið því fram að hér sé verið að ana út í svipað ferli og gert var í mars 1995 þar sem, eins og ég sagði áðan, nefndin fékk ekki nema einn sólarhring til að fjalla um málið.

Ég skil ekki við þetta mál án þess að mótmæla því að hér sé um neikvæðni að ræða af minni hálfu í garð innlendrar kvikmyndagerðar, ég er einungis að óska eftir faglegum vinnubrögðum Alþingis. Eftirlitsstofnun EFTA hefur gagnrýnt okkur fyrir skort á faglegum vinnubrögðum. Hæstv. ráðherra segir að búið sé að bera þennan texta undir ESA og það er allt í fína lagi. Við skulum segja að ESA muni samþykkja þetta allt saman og telja gott og gilt, en hv. þingmenn eiga eftir að kynna sér málið og þeir eiga rétt á því að fá að fara ofan í málið á sinn hátt og á sínum hraða og á þeim tíma sem þeir telja eðlilegan og nægan til þess.