Sala Landssímans

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 10:32:36 (3003)

2000-12-08 10:32:36# 126. lþ. 44.91 fundur 180#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Á dagskrá þessa fundar er m.a. 3. umr. um fjárlög. Við fulltrúar minni hlutans í fjárln. lögðum fram nokkrar tillögur á fundi nefndarinnar í gær vegna þess að m.a. er gert ráð fyrir því að selja Landssímann. Upplýsingar um þá sölu eru af mjög skornum skammti og þess vegna fórum við fram á það í fjárln. í gær að fá fulltrúa einkavæðingarnefndar á fund nefndarinnar þar sem ekki liggur fyrir skýrsla einkavæðingarnefndar um þessa sölu. Þegar sú tillaga var felld fórum við fram á að fá í hendur drög að skýrslu einkavæðingarnefndar. Sú tillaga var einnig felld. Þá fórum við fram á það að fá umsögn samgn. um sölu Landssímans. Sú tillaga var einnig felld.

Herra forseti. Þess vegna skortir okkur allar upplýsingar um það hvernig á að standa að sölu Landssímans. Hvaða leiðir eru hugsanlegar í því að selja Landssímann, hvernig á að standa að sölu þess hlutfalls sem um er rætt en við höfum ekki staðfestingu á? Rætt er um að hlutfallið sé 20--25%. Fyrir liggur að stjórnarflokkarnir virðast hafa komið sér saman um að selja Landssímann í heild sinni, þ.e. selja grunnnetið með en eins og þingheimi er kunnugt hefur annar stjórnarflokkanna verið með mikla fyrirvara í þeim efnum. Við höfum hins vegar engar upplýsingar um það hvernig á að tryggja jafnan aðgang allra landsmanna að grunnnetinu eftir þessa sölu. Þess vegna, herra forseti, er nauðsynlegt í upphafi að við fáum sem gleggstar upplýsingar um málið þannig að við höfum tök á því að fjalla um það í 3. umr. um fjárlagafrv.

Herra forseti. Ég vil koma þessum athugasemdum á framfæri um leið og ég kem þeim upplýsingum einnig á framfæri að af þessum ástæðum og vegna þess að það skortir upplýsingar um niðurskurð í samgöngumálum, greiddi minni hluti fjárln. atkvæði gegn því að frv. væri afgreitt úr nefndinni.