Sala Landssímans

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 10:34:35 (3004)

2000-12-08 10:34:35# 126. lþ. 44.91 fundur 180#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[10:34]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Fjárln. fjallar ítarlega um alla gjaldaliði fjárlagafrv. Hún fær til fundar við sig hina ýmsu fulltrúa stofnana, samtaka, félagasamtaka og fleiri aðila sem hún telur nauðsynlegt til að geta metið sem vandlegast alla kostnaðarliði sem verið er að leggja til í fjárlagafrv.

Hins vegar, herra forseti, er það svo allt önnur hlið þegar fjallað er um tekjuhlið frv. Þá koma tekjuliðirnir og endurskoðuð tekjuáætlun fram um það leyti sem ætlunin er að afgreiða fjárlagafrv. úr nefnd og eins og var fyrir tveimur dögum, þá kom fram tillaga um stórfellda eignasölu til þess að bæta hag ríkissjóðs eða ríkiskassans. Þar var gerð tillaga um sölu á Landssímanum án þess að nokkur grein væri gerð fyrir því hvernig sú sala ætti að fara fram, hverjir væru söluskilmálar og hvernig farið væri að með þá ábyrgð sem Landssíminn hefur sem almenningsþjónustufyrirtæki fyrir allar byggðir landsins. Þess vegna fórum við í minni hlutanum fram á að fá einkavæðingarnefnd til fundar til þess að skýra þetta. Við óskuðum eftir því að málið væri sent til umsagnar samgn. því að þetta er veigamikið og eitt stærsta samgöngutæki og samgöngumál allra íbúa landsins en því var hafnað.

Herra forseti. Ég tel gersamlega ótímabært að taka fjárlög til 3. umr. og ljúka henni án þess að mun ítarlegar sé fjallað um áhrifin af sölu Landssímans og skilmála sem þar eiga að vera fyrir alla íbúa landsins hvar sem þeir búa. Ég legg til, herra forseti, að 3. umr. um fjárlagafrv. verði frestað uns þetta liggur fyrir.