Sala Landssímans

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 10:38:52 (3006)

2000-12-08 10:38:52# 126. lþ. 44.91 fundur 180#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[10:38]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er eðlileg krafa að óska eftir því að upplýsingar um eignasölu og tekjuforsendur ríkissjóðs liggi fyrir áður en 3. umr. fjárlaga fer fram. Ekki síst að þá fari fram umræða ef menn eru með miklar breytingar varðandi fyrirkomulag eigna sem hafa verið hluti af grunngerð þjóðarinnar. Þætti mönnum ekki ástæða til að ræða það ef ríkisstjórnin ákvæði að selja Eimskipum, sem halda úti miklum bílaflota, eða einhverjum sérleyfishafa vegakerfi landsins? Halda menn að öðrum sem nýta vegina þætti slíkt traustvekjandi, að það byggði upp traust eða væri líklegt til þess að vera forsenda fyrir jafnræði þegnanna? Ég er ansi hrædd um ekki, herra forseti.

Sama á auðvitað við um grunnnet Landssímans og þess vegna bregðast menn við. Þegar ríkið er að selja stór, gróin og markaðsráðandi fyrirtæki, hljótum við að gera þá kröfu að menn hafi sjónir á hagsmunum fleiri en bara ríkissjóðs. Það getur ekki verið aðalatriðið undir slíkum kringumstæðum hvort ríkissjóður fær einni eða tveimur milljónum meira. Ábyrgð ríkisvaldsins liggur einfaldlega þannig gagnvart þegnunum. Það verður að huga að hagsmunum fleiri.

Í ljósi þessa, herra forseti, er nauðsynlegt að þessar upplýsingar liggi fyrir og í reynd forkastanlegt að gera ráð fyrir því að hér geti farið fram meginumræðan um tekjur ríkissjóðs án þess að menn geti í leiðinni rætt um það hverjar séu forsendur þessara tekna.