Sala Landssímans

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 10:40:54 (3007)

2000-12-08 10:40:54# 126. lþ. 44.91 fundur 180#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[10:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hún fer að verða brosleg, kokhreysti Framsfl., í ýmsum málum. Þeir hafa haldið því fram á undanförnum mánuðum að þeir ætluðu sér að tryggja að grunnnet Landssímans yrði ekki selt með honum. Nú hafa þeir gleypt aðferðir Sjálfstfl. í málinu og eru búnir að gefast upp. Það er ekki heldur einu sinni gefinn kostur á því að þingið fái að hlýða á það hvernig eigi að fara að þessu heldur skal málið rekið áfram. Hér sagði hv. þm. Jón Kristjánsson að þetta kæmi allt í ljós á sínum tíma. En ákvörðunin liggur fyrir í yfirlýsingum ráðamanna, Framsfl. og Sjálfstfl., á undanförnum dögum að það eigi að selja. Þeir eru gersamlega á valdi nauðhyggjunnar. Það verður að selja til að fjármagna sukkið og viðskiptahallann sem er uppi og þess vegna gefast framsóknarmenn upp í þessu máli.

Mér finnst satt að segja ömurlegt að hlusta á að það skuli þó ekki vera hægt að gera hlutina með þeirri reisn að það fáist rætt í sölum Alþingis hvernig eigi að standa að þessu úr því að þetta er orðin niðurstaða milli stjórnarflokkanna og úr því að það liggur fyrir í raun og veru því að varla efast menn um að á bak við þetta samkomulag sé vissa og vitneskja framsóknarmanna um hvernig eigi að fara að þessu eða hvað? Hvers vegna má þá ekki ræða það í sölum Alþings? Mér er bara spurn. Mér finnst þetta ótrúleg uppákoma. Mér finnst satt að segja ömurlegt að menn skuli standa frammi fyrir því að það eigi að hafa allt í þoku um það hvernig farið verður að þessum málum meðan ákvörðunin verður tekin í hv. Alþingi um að það eigi að verða til staðar fjármunir vegna sölu á þessu stærsta fyrirtæki sem hefur nokkurn tíma verið einkavætt á Íslandi.