Sala Landssímans

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 10:43:06 (3008)

2000-12-08 10:43:06# 126. lþ. 44.91 fundur 180#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[10:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég tek undir þá alvarlegu gagnrýni sem hefur komið fram á vinnubrögð á Alþingi. Alþingismenn lesa um það í blöðum og heyra um það í öðrum fjölmiðlum hvernig formenn ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl., hafi komið sér saman um það í bakherbergjum hvernig þeir ætli að ráðskast með eignir þjóðarinnar. Þetta er hin siðferðilega hlið málsins og snýr náttúrlega einnig að sjálfsvirðingu stjórnarmeirihlutans sem lætur bjóða sér vinnubrögð af þessu tagi.

Við erum að ræða um störf þingsins. Það er óeðlilegt að fram fari 3. umr. um fjárlögin, lokaumræðan um fjárlögin, án þess að allar forsendur í málinu liggi fyrir. Í sjálfu sér er rétt ábending hjá hv. formanni fjárln. að þröngt skoðað er þetta ekki mál fjárln. heldur er samgn. að kryfja málin. Hins vegar er það fjárln. að grafast fyrir um forsendur fyrir tekjuöflun í fjárlagafrv. og þarna þarf að verða samspil og samstarf milli þessara tveggja nefnda en gagnvart þinginu sem á að fara að taka þátt í umræðu um lokaafgreiðslu fjárlaga þarf að gera rækilega grein fyrir efnahagslegum forsendum tekjuöflunar og þar með hugsanlegri sölu á hlut í Landssímanum. Ég tek því undir þau sjónarmið sem hafa komið fram, m.a. frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem á sæti í fjárln. fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að þessar forsendur þurfa að liggja fyrir áður en við göngum frá fjárlögunum.