Sala Landssímans

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 10:51:23 (3012)

2000-12-08 10:51:23# 126. lþ. 44.91 fundur 180#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[10:51]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þessi framsetning af hálfu ríkisstjórnarinnar er alveg sambærileg við það sem áður hefur verið þegar menn hafa verið að kynna einkavæðingaráform. Á hinn bóginn var nauðsynlegt, hygg ég, vegna þeirrar samfelldu umræðu um að um þetta mál væri stórfelldur ágreiningur milli stjórnarflokkanna, að fram kæmi að svo væri ekki þannig að mönnum væri ljóst að þingmeirihluti væri fyrir málinu. Þess vegna var það upplýst með skýrum og glöggum hætti.

En það er rétt að menn átti sig á því þegar nefnd eru til sögunnar þau fyrirtæki sem til umræðu eru, Landssíminn annars vegar og sameinaður banki hins vegar, að þá eru menn búnir að leggja fram upplýsingar um að á bak við þessar tölur sem getið er um í fjárlagafrv., einkavæðingartölurnar sem þar eru, eru ríflegar eignir. Það þarf aðeins að selja lítinn hluta af þessum tveimur fyrirtækjum sem samstaða er um í ríkisstjórninni að skuli selja á kjörtímabilinu til að tryggja það að þessar tölur standi. Það sem skiptir máli fyrir þingið er að menn sjái hvað er á bak við hugmyndir ríkisstjórnarinnar. Gefið er upp hvaða fyrirtæki eiga þar hlut að máli. Síðan er það algjörlega ljóst að þegar heimildin kemur til sölunnar þá verða hér ítarlegar umræður byggðar á ítarlegum gögnum sem ítarlega og vel hafa verið unnin og ríkisstjórnin mun leggja það fram í byrjun næsta þings. Þá fer fram hin efnislega umræða um Landssímann til að mynda og hann sem söluefni, en ekki nú.