Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 12:02:55 (3020)

2000-12-08 12:02:55# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[12:02]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 2000 gerðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs athugasemdir við ákvæði 7. gr. laganna þar sem fjallað var um sölu á eignarhlutum Skógræktar ríkisins, annars vegar í jörðinni Straumi í Hafnarfirði og hins vegar eignarhluta Skógræktar ríkisins í jörðinni Hvítsstöðum. Ekki kom skýrt fram í þeirri söluheimild að andvirðinu skyldi varið til þess að styrkja fjárhag Skógræktar ríkisins eða verja andvirðinu til skógræktarmála.

Við þá vinnu gaf hv. formaður fjárln. þá yfirlýsingu að það væri skilningur nefndarinnar að andvirðið af sölunni rynni til slíkra mála. Ég átti því von á því, herra forseti, að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2001, þar sem þessar heimildir eru endurnýjaðar, kæmi þetta skýrt fram varðandi ráðstöfun fjármagns við sölu þessara jarða. Svo er ekki, herra forseti, heldur er einungis opin heimild til þess að selja eignarhluta Skógræktar ríkisins í þessum tveimur jörðum.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. formann fjárln. hvort þarna hafi ekki orðið á mistök. Hann minntist á ýmsa aðila sem ekki hefðu fengið afgreiðslu hjá fjárln. varðandi sín mál. Fjárhagur og fjárþörf Skógræktar ríkisins var ekki þar til afgreiðslu þó að við vitum að þar er þörf aukins fjár og ég vænti þess að hér séu bara mistök á ferðinni og muni verða leiðrétt og þetta verði sett í textann skýrt og skorinort að andvirði sölu þessara jarða, verði þær seldar, renni ótvírætt til eflingar skógrækt í landinu og til Skógræktar ríkisins.