Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 12:07:55 (3024)

2000-12-08 12:07:55# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Flestir hv. þingmenn bíða eftir því að þau áform verði kynnt sem hæstv. samgrh. og ríkisstjórnin hefur boðað um niðurskurð í vegamálum. Hv. formaður fjárln. vék ekki orði að þeim niðurskurði í máli sínu. Minni hlutinn í fjárln., stjórnarandstaðan, hefur margítrekað kallað eftir að fá kynntan þennan niðurskurð en ekki var orðið við eindreginni ósk minni hlutans í fjárln. Ég tel að fátítt sé að að við hefjum 3. umr. fjárlaga og enn hafi niðurskurðurinn ekki verið kynntur sem boðaður hefur verið í vegamálum.

Hæstv. samgrh. lofaði því fyrir örfáum vikum að fyrir 2. umr. fjárlaga yrði þingheimi kynntur niðurskurðurinn í vegamálum. Við erum að hefja 3. umr. og enn bólar ekkert á að við fáum einhverja sundurliðun á því hvar sá niðurskurður á að lenda.

Ég tel, herra forseti, að ótækt sé og ekki hægt að halda umræðunni áfram fyrr en þau áform hafa verið kynnt þingheimi. Ég hygg að margir þingmenn muni víkja að vegamálunum í máli sínu og það er ekki hægt að ræða þau mál í eðlilegu samhengi fyrr en tillögur ríkisstjórnarinnar liggja fyrir í því efni.

Þess vegna kalla ég eftir því, herra forseti, áður en umræðan heldur áfram, að við fáum þennan niðurskurð kynntan. Ég sé að hæstv. starfandi samgrh. er í þingsalnum þannig að ég óska eftir því að áður en næsti þingmaður fær orðið við 3. umr. fjárlaga að við fáum þá kynningu.

Ég spyr hv. formann fjárln.: Hvers megum við vænta í þessu efni? Það eru ekki boðleg vinnubrögð að halda umræðunni áfram án þess að fá skýringar á svo mikilvægum þætti sem vegamálin eru.