Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 12:11:26 (3026)

2000-12-08 12:11:26# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[12:11]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi varla mínum eigin eyrum að málin standi svo, ef ég skil málflutning hv. þm. rétt, að umræðan eigi að ganga fram og ljúka án þess að þingheimi séu kynnt þau áform sem uppi eru í niðurskurði í vegamálum og það upp á 800 millj. kr. Ég gat ekki skilið orð hv. þm. öðruvísi en svo. Hér er auðvitað komin upp grafalvarleg staða í þeirri umræðu sem nú er hafin, þ.e. 3. umr. fjárlaga, og mun hafa áhrif, herra forseti, á þær umræður sem fram fara og framgang 3. umr.

Ég óska því eindregið eftir því að hæstv. starfandi samgrh. blandi sér nú þegar í umræðuna til að 3. umr. geti haldið áfram með eðlilegum hætti og hann segi okkur hvort það sé virkilega rétt sem skilja mátti af orðum hv. þm. að við fáum enga kynningu á þeim áformum sem uppi eru um niðurskurð.

Ég vil líka spyrja hv. formann fjárln., af því að nú boðar Þjóðhagsstofnun að verðlagshækkanir verði 5,8% á næsta ári, hækki úr 4% frá því sem áformað var á fjárlögum í 5,8%: Hvar er gert ráð fyrir því í tillögum meiri hlutans að lífeyristryggingar, þ.e. greiðslur til aldraðra og öryrkja hækki í samræmi við spár um verðlagsþróun? Ég sé að lífeyristryggingar samkvæmt frv. eiga að hækka um 4% en nú ættum við að sjá breytingu við 3. umr. fjárlaga þegar Þjóðhagsstofnun boðar 5,8% verðbólgu á næsta ári. Mér telst til að við gætum verið að tala um 400--450 millj. kr. sem lífeyrir almannatrygginga ætti að hækka út af hinni nýju spá og ég spyr: Hver eru áform hæstv. ríkisstjórnar í því efni?

Ég ítreka óskir mínar til hæstv. starfandi samgrh. að hann blandi sér þegar í umræðuna til að kynna okkur áformin sem uppi eru varðandi vegamálin.