Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 12:13:41 (3027)

2000-12-08 12:13:41# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[12:13]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar vegamálin þá hef ég í rauninni engu við þá yfirlýsingu að bæta sem ég gaf áðan nema að því leyti til að ég vil undirstrika eitt í þessu sambandi, að orðanotkunin um niðurskurð í vegamálum finnst mér vera örlítið villandi. Hér er eingöngu um frestun á framkvæmdum að ræða en ekki er verið að hætta við eða skera niður neinar tilteknar framkvæmdir. Þetta er spurning um flutning eða verkhraða í einhverjum tilteknum framkvæmdum en hins vegar er ekki um niðurskurð að ræða. Það kann þá að vera um flutning á verkefnum milli áranna 2001 og 2002.

En þessi mál og þær upplýsingar sem ég hef fengið eru í skoðun hjá Vegagerðinni og munu verða lagðar fram og ræddar ítarlega í Alþingi.

Varðandi tekjuáætlunina þá er rétt að Þjóðhagsstofnun lagði fram þjóðhagsspá. Hún kynnti hana fyrir okkur og við kölluðum tekjudeild fjmrn. til viðtals og bárum þetta undir hana, hvort þeir gerðu breytingar á áætlunum sínum af þessu tilefni, en fengum upplýsingar um það hjá fjmrn. að þeir teldu ekki ástæðu til að gera það. Það eru þær upplýsingar sem við höfum um þetta mál, en hér er auðvitað í báðum tilfellunum um spár að ræða.