Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 13:33:33 (3035)

2000-12-08 13:33:33# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef út af fyrir sig ekki svo mikið við störf hæstv. forseta að athuga, þau hafa verið með ágætum í morgun. Ég hef hins vegar það um störf þingsins og um stjórn forseta að segja að mér finnst ekki líklegt að störfin sem fram undan eru við að ljúka þeirri umræðu sem hér er hafin gangi mjög liðlega fyrir sig ef þær upplýsingar verða ekki til staðar sem menn hafa verið að kalla eftir.

Nú hefur líka komið á daginn til viðbótar því sem rætt var um fyrr í dag, Símann, að flestir hv. þm. sem hafa tekið til máls telja mikla nauðsyn á því að upplýst verði hvað menn ætla sér í því stóra efni, og að ekki sé hægt að fá fram þær upplýsingar sem þó var lofað fyrir stuttu af hæstv. samgrh. er ekki gott. Hæstv. samgrh. ætlaði upplýsa við þessa umræðu hvernig skipting ætti að verða á niðurskurði til vegamála. Satt að segja er þetta svo stórt mál og búið að vera það mikið í umræðunni að það er náttúrlega óþolandi að ekki skuli liggja fyrir hvernig menn ætla að fara með það. Um er að ræða framlög til stórra samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu t.d. sem hafa verið í umræðunni. Hæstv. samgrh. hefur marglýst því yfir að hann telji að niðurskurðurinn eigi að koma þar niður af ýmsum ástæðum. Hæstv. ráðherra hefði þurft að vera hér til að útskýra þetta og hæstv. starfandi samgrh. er ekki hér nú. Ég spyr hæstv. forseta eftir því hvernig á því standi að hann er ekki í salnum til að fylgjast með.

(Forseti (ÍPG): Forseti vill láta þess getið að starfandi samgrh. er á leið hingað í þinghúsið.)

Ég þakka fyrir þessar upplýsingar, hæstv. forseti, og hæstv. starfandi samgrh. gengur nú í salinn, umræðan getur þess vegna haldið áfram.

En það sem ég vildi bæta við, hæstv. forseti, áður en ég lýk máli mínu er þetta: Mér finnst full ástæða til að stjórnarliðið bregði nú við, komi með upplýsingar um þau mál sem hér hafa verið til umræðu til að liðka fyrir því að afgreiðsla mála geti gengið fram eins og skyldi og hafi ekki þá hulu yfir þeim fyrirætlunum sem búið er að ná samkomulagi um í stjórnarflokkunum um t.d. Símann og um niðurskurð í vegamálum, því að ég ætla mönnum það ekki að þeir séu ekki búnir að vinna þá heimavinnu og að fyrir liggi hvað menn ætla sér að gera í þessum efnum.

Þetta þarf að koma fram við umræðuna til þess að bæði þingið og þjóðin viti hvað er hér á ferðinni.