Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 13:42:14 (3039)

2000-12-08 13:42:14# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, sjútvrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég skil auðvitað mjög vel að hv. þingmenn vilji fá þær upplýsingar sem um hafði verið talað að gerð yrði grein fyrir áður en fjárlögin væru afgreidd. En eins og ég hef áður skýrt hafa mál einfaldlega þróast þannig að þau gögn sem ætlunin var að hafa tilbúin eru það bara ekki enn þá og þar af leiðandi er ekkert um það að tala að hægt sé að leggja þau fram þar sem þau eru ekki tilbúin, og ég hef reynt að útskýra það eftir bestu samvisku hvernig á því standi.

Staðan er formlega ekkert breytt þrátt fyrir þetta því að það þarf að koma til afgreiðslu Alþingis á breyttri vegáætlun og hún hefði hvort sem er ekki komið fram fyrr en eftir áramótin. Þá liggur fyrir þingmál sem hv. samgn. þarf að taka afstöðu til og fjalla um á eðlilegan hátt eins og við þekkjum að gert er á Alþingi. Þó að ég viðurkenni að auðvitað hefði verið betra að þessar upplýsingar lægju fyrir eins og ætlunin var þá er staðan bara því miður sú að það hefur ekki getað gerst af þeim ástæðum sem ég hef fyrr tilgreint. En það breytir ekki þeim formlega farvegi sem málið mun eftir sem áður fara í og hefði farið í, að breytingin mun koma sem tillaga við vegáætlun síðar á þinginu.