Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 13:43:54 (3040)

2000-12-08 13:43:54# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, EMS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Einar Már Sigurðarson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þessi umræða á sér vissulega eðlilegar skýringar. Það er vegna þess að hæstv. samgrh. lofaði að þessar upplýsingar lægju hér fyrir. Og ekki nóg með það heldur er þessu einnig lofað í texta í fjárlagafrv. Það er því afar einkennilegt að ekki skuli vera hægt að upplýsa nokkurn skapaðan hlut um málið, ég tala nú ekki um í ljósi þess að í þingflokkum stjórnarflokkanna hefur einnig verið fjallað um þetta mál. Til að skýra þetta enn fekar vil ég lesa úr örlítilli frétt sem birtist í dagblaðinu Degi 29. ágúst sl., en þar segir m.a, með leyfi forseta:

,,Langstærsta hluta þeirra framkvæmda átti að framkvæma í Reykjavík.`` --- Þ.e. þeirra framkvæmda sem átti að skera niður.

,,Helstu framkvæmdirnar sem frestað er í borginni eru tilfærsla Hringbrautarinnar, á móts við Landspítalann, suður fyrir Umferðarmiðstöðina, breikkun Miklubrautar og mislæg gatnamót á mótum Víkurvegar og Vesturlandsvegar. Sömuleiðis verður gerð akstursbrauta vegna lagfæringa á Reykjavíkurflugvelli frestað.``

Og áfram segir í sömu frétt:

,,Á landsbyggðinni eru þær frestanir eða niðurskurður helstar að byggingu nýrrar tvíbreiðrar brúar yfir Þjórsá verður frestað.

Þá verður byggingu hálendisvega í tengslum við virkjanaframkvæmdir frestað. Ýmsum minni framkvæmdum í vegamálum um landið verður líka frestað.``

[13:45]

Herra forseti. Frá þessu er sagt í dagblaðinu Degi 29. ágúst sl. En hvað höfum við fyrir okkur í því að fjallað verði um þetta í þingflokkum stjórnarflokkanna? Jú, í sömu frétt segir, með leyfi forseta:

,,Kristján Pálsson, alþingismaður og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, segir að einhugur ríki innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins um þetta mál og að menn hafi verið ánægðir með niðurstöðuna.``

Herra forseti. Mér sýnist hér ekkert fara á milli mála að a.m.k. í þingflokki Sjálfstfl. hafi verið fjallað um þetta og niðurstaða fengin. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. starfandi samgrh.: Eru þessar fréttir réttar?