Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 13:49:11 (3042)

2000-12-08 13:49:11# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. meiri hluta JónK (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega undirstrika eitt atriði í þessari umræðu sem ég kom inn á í morgun. Hér er ekki rétt með farið þegar sagt er að um niðurskurð á vegaframkvæmdum sé að ræða. Málið snýst um að fresta framkvæmdum. Það vildi svo til að framkvæmdum fyrir 2 milljarða var frestað á yfirstandandi ári. Við gættum þess og ég hef verið talsmaður þess að staðið verði við að hér sé um frestun en ekki niðurskurð að ræða. Í ljósi þess komu allar þær framkvæmdir inn næsta ár. Það sem fjárln. og meiri hluti hennar getur gert í þessu máli er að sjá til þess að þegar talað er um frestun þá sé það frestun, en ef talað er um niðurskurð þá sé það niðurskurður.

En ég vildi, vegna þess að hér hafa margir talað um niðurskurð, að það væri ljóst að hér er ekki um niðurskurð á vegaframkvæmdum að ræða. Hér er um frestun að ræða en hins vegar hefur það komið í ljós hjá starfandi samgrh. að Vegagerðin er að yfirfara vandlega þau verkefni sem koma til greina í þessu sambandi. Tillögurnar munu liggja fyrir þegar vegáætlunin verður endurskoðuð í vetur. Það vill svo til að ég held að það sé enginn málaflokkur sem þingmenn hafa jafnmikil áhrif á og vegamál, forgangsröðun og vinnu í þeim efnum. Í engum málaflokki sem ég hef komið að á Alþingi hafa þingmenn haft eins mikil áhrif og þegar kemur að forgangsröðun vegaframkvæmda.