Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 15:18:54 (3049)

2000-12-08 15:18:54# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir þau orð sem hann hefur sagt svo langt sem þau ná.

Ég lýsti eftir því hvort úttekt hefði farið fram á þeim jörðum sem hér er verið að bjóða til sölu varðandi einmitt það sem við minntumst á, mikilvægi og þýðingu þess að þær haldist í eigu ríkisins vegna sérstæðrar náttúru eða náttúruverðmæta, til almennings eða útivistar. Ég get ekki séð í hendi mér hve margar af þeim jörðum eru eyðijarðir eða eru jarðir í byggð. Það er alveg rétt að ábúendur hafa rétt til þess að leysa til sín jarðir eftir ákveðnum reglum og það er vel og sömuleiðis er afar gott ef eyðijarðir geta nýst nærliggjandi ábúendum og styrkt byggðina með því móti. Ég held að það sé það mikilvægasta sem verði að huga að.

En ég ítreka að ég hefði viljað sjá ítarlega skýrslu um einmitt þær jarðir sem hér eru boðnar til sölu, að hve miklu marki þær einmitt hafa fengið þá umfjöllun, þá úttekt sem hæstv. landbrh. hefur beitt sér fyrir að setja reglur um. Það tel ég vera mjög mikilvægt. Ég er andvígur ótímabærum jarðasölum.

Ég legg áherslu á að hæstv. landbrh. láti endurskoða heimild varðandi söluna á Reykjum í Hjaltadal.