Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 15:24:01 (3052)

2000-12-08 15:24:01# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SvH
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þetta snertir ekki ríkiskapítalisma, sagði hv. síðasti ræðumaður, heldur heilbrigða skynsemi.

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., gat þess í lok ræðu sinnar fyrr í dag að blikur væru á lofti í efnahagsmálum og menn þyrftu að huga að hættumerkjum. Hann tók þó fram, sem allir geta tekið undir með honum, að ástæðulaust er að hafa uppi ramakvein, úrtölur eða svartsýnisraus. Það er enginn sem heldur því fram að við séum á einhverri heljarþröm, að Íslandi sé að einhverju leyti hætt. Það hefur enginn talað á þá vísu og ég vona að orð mín verði ekki skilin svo þótt ég víki að ýmsu sem ég tel að betur mætti fara.

Í framsögu sinni við 2. umr. fjárlaga ræddi formaður fjárln. um aðallega þrjú hættumerki. Í fyrsta lagi verðbólgu, í öðru lagi hinn mikla viðskiptahalla og í þriðja lagi um peningamálin almennt og sérstaklega um útlánaaukninguna sem hefur orðið gífurleg, vaxtasigið o.s.frv.

Hv. formaður fjárln. tók mjög skýrt fram að hér væri verðbólga, eins og hann sagði þá, tvöfalt hærri en í aðalviðskiptalöndum okkar. Það hefur enn hallast á merinni frá því þau orð voru sögð og hann tók fram, formaðurinn hv., að þetta fengi ekki staðist til lengdar og ég man þau orð greinilega. Hver voru úrræði hans? Að ráða bót á verðbólgunni, fyrst og fremst að beita ríkisfjármálunum sem hagstjórnartæki. Fyrst og síðast væru það ríkisfjármálin sem hann hefur hönd í bagga með sérstaklega sem formaður fjárln., ásamt hæstv. fjmrh. Það var hagstjórnartækið sem beita þyrfti til að hamla gegn þessari vá.

Um viðskiptahallann lét hann þess getið að hann væri allt of mikill, hann væri á milli 50 og 60 milljarða. Á daginn hefur komið að hann er gott betur en það og stefnir upp undir 70 milljarða kr. Hvert er heilsulyfið við þeirri vá? Hv. formaður fjárln. nefndi að það væri fyrst og fremst beiting ríkisfjármálanna sem er í höndum hans.

Þriðja váin, peningamálin, stjórnlaus útlánaaukning, vextir sem nálgast nú 15%, 20% á framlengingarvíxlum, taumlaus fjáraustur lánveitenda og taumlaus innflutningur lánastofnana. Á bílasölum eru núna hundruð bíla sem eru til sölu, en á þeim hvíla vegna kapps eignarleigufyrirtækja og tryggingafélaga fjárhæðir hærri en sem nemur söluverðinu og þess vegna ganga þeir ekki út. Fólk hefur gefist upp á að reka þessi tæki sín af því sem það veldur ekki skuldunum sem á því hvíla.

Ekki mundi þetta að öðru jöfnu vera kallaður stöðugleiki, nema í munni hæstv. forsrh. Hvernig hefur tiltekist um beitingu þessa heilsulyfs, þessa hagstjórnartækis sem ríkisfjármálin eiga að vera og ég er sammála hv. þm. Jóni Kristjánssyni um að eru úrslitaatriði í baráttu við þensluna, við verðbólguna, við öllum meinsemdum, aðalmeinsemdum sem nú stríða á fjármálalíf okkar?

Er það ekki rétt skilið hjá mér að í meðförum fjárln. hafi fjárlagafrv. hækkað um rúm 6% frá því sem það var lagt fram? Er það ekki rétt skilið hjá mér að gert sé ráð fyrir tekjuauka vegna sölu síma og banka upp á 15 milljarða kr.? Tekjuafgangurinn er samtals 34 milljarðar kr. eftir því sem upplýst er, en hvers eðlis er þessi tekjuafgangur?

Ég spyr hv. formann fjárln.: Hversu mikill væri tekjuafgangurinn ef enginn viðskiptahalli væri?

[15:30]

Það vill nefnilega þannig til að í ríkisfjármálunum sýður og kraumar í pottinum. Þessi tekjuafgangur er hér um bil allur, ef ekki allur, froðukúfurinn sem upp af börmunum gengur. Þetta er ekki öðruvísi aflafé, þetta er ekki fé sem verður til vegna arðsemi af rekstri eða vegna framleiðniaukningar. Þetta er froðufé og mig minnir --- ég verð þá leiðréttur ef ég fer með rangt mál --- að hv. þm., sem er gætinn maður í fjármálum, hafi látið þess sérstaklega getið á haustdögum að þess vegna einmitt, vegna þess hvernig þetta fé er til komið, bólgufé, þá væri varhugavert að ganga mjög á eyðslu þess. Mig misminnir þetta áreiðanlega ekki.

Hækkun fjárlaganna, þessa hagstjórnartækis nú eins og þau líta út er 13,5% miðað við niðurstöðu fjárlaganna eins og þær voru fyrir árið 2000. Og hvað er svo að segja um áform um lántökur eins og gert var ráð fyrir á fjárlögum þessa árs? Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir 1,2 milljörðum fyrir næsta ár en nú eru uppi áform um 27,6 milljarða lántökur. Á fjárlögum árið 2000 voru þetta 5 milljarðar, en endar a.m.k. í 25,5.

Þetta eru að vísu ekki margar prósentur, 5 upp í 25,5, eftir reiknimeistaranum hæstv. forsrh. sem fór með útreikninga í útvarpi í gærkvöldi og komst að því að hækkun Þjóðmenningarhússins úr 300 millj. í 400 millj. kr. þegar hann var búinn að reikna allt saman mundi vera svona eins og 5% aukahækkun. Þá vitum við það og höfum eignast nýjan reiknimeistara.

Hv. þm. Jón Kristjánsson var á sínum tíma kunnugur verslun og vafalaust hefur hann starfað á þeim tíma þegar verðlagsákvæði voru hvað hörðust. Við skulum hugsa okkur að hann hefði mátt leggja á vöru um 15%. Þá þýðir það eftir nýja reiknimeistaranum að hann hefði getað tvöfaldað verðið á vörunni. Hækkun úr 300 millj. í 400 millj. endaði í 5% hjá hæstv. forsrh. í viðtalinu í útvarpinu og þá, ef það hefði hækkað í 500, hefði þetta verið 10% og í 600, um tvöfalt, þá hefði það verið 15% eftir þessum nýja reiknimeistara, hinum nýja Sölva Helgasyni okkar sem einu sinni reiknaði tvíbura í konu og þar af annan svartan. Við höfum sem sagt eignast nýjan doktor í ,,kalkúlasjónum``, hæstv. forsrh. Davíð Íslandus Oddsson.

Hv. formaður fjárln. margtók fram við 2. umr. fjárlaga að ástandið eins og hann lýsti því í þessum þremur aðalatriðum, vegna þessara þriggja aðalhættumerkja væri mikið áhyggjuefni og það væri fullkomin hætta á, ef ekki yrði beitt aðhaldi í ríkisfjármálum, að slægi í bakseglin. Og hver er svo niðurstaðan?

Upplýst hefur verið og yfirlýst að beita ætti aðhaldssemi í ríkisfjármálum. Ekki er nóg að hafa uppi um það orð. Ég spyr beint: Í hvaða efni kemur það fram? Í hvaða stað kemur það niður? Ekki fæ ég það séð með neinu móti í gerð og samsetningu fjárlaganna eins og þau eru úr garði gerð. Ég vil fá að vita hvar og í hverju aðhaldssemin birtist okkur.

En það sem veldur enn meiri vökum er að af þeim hættumerkjum sem hv. formaður fjárln. nefndi hefur hæstv. forsrh. ekkert frétt. Hann hefur ekkert frétt af þeim alveg frá því að hann flutti ræðuna 17. júní og allar götur í hvert einasta skipti sem hann hefur verið spurður út úr þessum málum í fjölmiðlum hefur hann sagt að þetta væri allt í besta lagi. Og hvað sagði hæstv. forsrh. í viðtölum sínum við fjölmiðla í gærkvöldi?

Ég sé mig tilneyddan, herra forseti, til þess að lesa þau viðtöl upp af því að hæstv. forsrh. hefur ekki fyrir því að mæta hér til að fara með speki sína heldur kýs að tala um þessi mál við fréttamiðla sem ekki þora svo að spyrja hann út úr eða kunna það ekki.

Hér er fyrst Ríkisútvarpið kl. 18. Ég vil taka það fram að hann fór með nýju útreikningana sína aðeins síðar og get ég sleppt þeim því ég hef rifjað þá upp. Þar fór þulurinn fyrst með þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

,,Davíð Oddsson forsrh. sagði ... að nýja þjóðhagsspáin sýndi í öllum megindráttum óbreytta og trausta stöðu efnahagslífsins.``

Hann vísar á bug gagnrýni Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, á efnahagsstjórnun og segir hana óábyrga.

En að vísu hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson varla tekið eins djúpt í árinni og hv. formaður fjárln. að þessu leyti, ég tala nú ekki um vin minn, hv. þm. Einar Odd Kristjánsson og mun ég koma að honum síðar.

Í öllum megindráttum sýnir þessi nýja þjóðhagsspá óbreytta stöðu hvað efnahagslífið varðar, segir forsrh. Allar meginundirstöðurnar sem nefndar séu í skýrslunni séu afar góðar, verðbólgan, viðskiptahallinn, peningamálin.

Þá hafa menn það. Annar hvor, formaður fjárln. eða forsrh., hefur rangt fyrir sér, en augljóst er að hæstv. forsrh. tekur ekkert mark á formanni fjárln. Gildir hið sama um hæstv. fjmrh.? Hefur hann sama álit á meiningum hv. formanns fjárln. og forsrh.? Það þurfum við að fá að vita til þess að gera okkur grein fyrir því hvort slíkt hættuástand er upp risið, að aðaloddvitar í ríkisfjármálunum viti ekki hvor af öðrum eða tali í austur og vestur um háskamálin um þá vá sem fyrir dyrum er og þeir sjálfir, eða formaður fjárln. aðallega, hefur lagt mikla áherslu á.

Og hér kemur hæstv. forsrh., með leyfi forseta, og segir:

,,Atvinnulífið er með mjög traustum blæ. Vinnufúsar hendur, sérhverjar vinnufúsar hendur hafa nægilega atvinnu og atvinnuleysi sem sagt lítið. Hagvöxturinn hins vegar verður nokkuð minni en í ár, verður 4% á þessu liðna ári en um 1,6 kannski til 2% á næsta ári sem er þægilegra við að eiga.``

Er þá ekki núll prósent hagvöxtur sá alþægilegasti við að eiga? Eða að það bara snarist á merinni? Sá hagvöxtur sem menn hafa verið að hæla sér af undanfarin ár hefur verið óþægilegur við að eiga. Og hér hefur verið tekið fram að þeir þekki enga þjóð í Evrópu sem hafi haft annan eins hagvöxt og hæla sér af því. Samt er þetta þægilegra við að eiga að hann falli sem mest.

Og áfram segir:

,,Það er að draga úr þenslu. Allir þessir þættir eru mjög jákvæðir. Eini þátturinn sem nefndur er til sögunnar er spá um að verðbólgan kunni að fara upp í 5,8%. Þetta er ekki einhver ný spá því um leið og gengið breyttist og gengið seig frá því sem það hafði verið hæst í maí um allmörg prósent, þá er það þumalfingursregla`` --- ég er hræddur um að hann telji með fótunum stundum --- ,,þumalfingursregla sem spámeistarar gefa sér að það hafi áhrif til verðbólguhækkunar, verðlagshækkunar um tiltekna prósentu vegna þess hversu hátt hlutfall innflutnings er hér á landi.``

Hann er þarna að víkja að viðskiptahallanum.

,,Davíð gefur lítið fyrir gagnrýni Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, á efnahagsstjórnina.`` --- Ég tek fram, herra forseti, að ég er að lesa upp skrifað mál og þar er öllum titlatogum sleppt. --- Davíð Oddsson svarar:

,,Mér finnst þetta afskaplega óábyrgt tal hjá honum og ekki jafnvel sæmandi fyrir stjórnmálamenn að tala svona því að menn eru að mála mynd af atvinnunni hér og atvinnuhorfum fólks sem eiga sér enga stoð.``

Heyrir hv. þm. Jón Kristjánsson, 3. þm. Austurl., þetta tal? Hann getur tekið þetta allt til sín ekki síður en hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Allt sem hv. formaður fjárln. hefur sagt um verðbólguna, viðskiptahallann, peningamálin er sem sagt óábyrgt tal að mati formanns ríkisstjórnarinnar, og á sér enga stoð.

Síðan hélt messan áfram þar sem viðtal var á Stöð 2 og hæstv. forsrh. spurður út úr áliti Þjóðhagsstofnunar. Hann sagði að það hefði allt sínar eðlilegu skýringar, eins og hann segir hér, með leyfi forseta:

,,Forsætisráðherra segir að spá Þjóðhagsstofnunar um tæplega 6% verðbólgu og aukinn viðskiptahalla komi ekki á óvart og eigi sér fullkomlega eðlilegar skýringar. Hann segir að svo virðist sem formaður Samfylkingar hafi gengið á hurð nýlega.``

Þetta heitir nú í lok viðtalsins að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi ,,gengið á vegg``. En það breytir nú ekki miklu ef maðurinn hefur hvort sem er ruglast svona við þennan árekstur.

,,Forsætisráðherra er mjög sáttur við nýja þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar. Hann segir að spá hennar um aukna verðbólgu og aukinn viðskiptahalla eigi sér fullkomlega eðlilegar skýringar og hann segir alveg ljóst að formaður Samfylkingar hafi ekki kynnt sér spána eða lesið.``

Hvaða eðlilega skýringu á hún sér, þessi spá Þjóðhagsstofnunar? Skýringanna hlýtur að vera að leita hjá stjórn ríkisfjármálanna.

Davíð Oddsson forsrh. sagði orðrétt:

,,Ja hún er að flestu leyti mjög hagstæð spá. Það kemur fram í henni að allir grundvallaratvinnuvegirnir standa vel, atvinnuleysi nánast ekkert, allar vinnufúsar hendur hafa hér störf, hagvöxtur á næsta ári verður 1,6% sem er miklu viðráðanlegri hagvöxtur heldur en við höfum haft, hann er 4% á þessu ári samkvæmt skýrslunni, 0,6% meiri en hafði áður verið spáð.``

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, að hagvöxturinn skuli falla og við fáum miklu viðráðanlegri hagvöxt en áður. Og áfram segir:

,,Hann segir að hækkunin á viðskiptahallanum sé til komin vegna breyttra uppgjörsreglna og sé því í raun ekki hækkun í sjálfu sér.`` --- Má ég fá að vita hvaða nýjar uppgjörsreglur eru hér á ferðinni? Ég hlýt að beina þeirri spurningu til formanns fjárln. hvaða nýjar uppgjörskúnstir eru hér á ferðinni. Ekki hefur það verið skýrt fyrir hinu háa Alþingi svo ég viti til.

,,Þá komi spáin um 1,8 prósentustiga hærri verðbólgu engum sem fylgist með á óvart þar sem þumalputtareglan,`` --- kemur hann enn með þumalputtana sína --- ,,sé sú að 40% af gengissigsprósentu skili sér í verðbólgutölu. Hann segist því ekki sjá neinar blikur á lofti í efnahagslífinu þrátt fyrir þessa nýju spá. ``

Heyrir hv. formaður fjárln. til eiðspjalls hæstv. forsrh.? Engar blikur á lofti.

[15:45]

En ég vitnaði áðan í hv. formann þar sem hann sagði fullum fetum í lok ræðu sinnar áðan að blikur væru á lofti í efnahagsmálum.

Það er ljóst að ekki er mikið samband milli hæstv. forsrh. og hv. formanns fjárln. þar sem opinber skýrsla í skúffu hæstv. forsrh. kom ekki fyrir augu hv. formanns fjárln. fyrr en í byrjun desember, en það sem fram fór hafði þó legið ljóst fyrir í ágúst, litlar skitnar eitt hundrað millj. sem forsrn. fór fram úr við endurbyggingu Safnahússins gamla. En það þyrfti að breytast. Þeir mega til með að samræma málflutning sinn, oddvitar okkar hér á þingi og í framkvæmdarvaldinu, vegna þess að annars ruglast menn og þeir ruglast án þess að þurfa að rekast á hurð eða vegg. Þetta getur auðvitað ært óstöðugan, en ég verð að segja alveg eins og er að ég tek miklu meira mark á hv. þm. Jóni Kristjánssyni en hæstv. forsrh. í þessu falli.

En ég vil fá að vita hvort hæstv. fjmrh. vildi þá ekki skera úr um það hvort ég hef rangt fyrir mér að þessu leyti, að taka meira mark á hv. formanni fjárln. en hæstv. forsrh. Hann á að vera í færum um það.

Ég hirði ekki um að vitna meira í þessa endileysu, en það er hryggilegt að þurfa að segja að hæstv. forsrh. stundar það jafnt og þétt að mála hlutina allt öðrum litum en staðreyndir og raunveruleikinn segir okkur til um. Þetta er einn endalaus blekkingavefur.

Hv. formaður fjárln. gat þess við 2. umr. fjárlaga að nefndin hefði verið með hugann við að hamla gegn byggðaröskun eins og það var orðað.

Ég átta mig satt að segja ekki vel á því með hvaða hætti hv. fjárln. eða öllu heldur meiri hluti á hinu háa Alþingi, ríkisstjórnin, hefur unnið að því að hamla gegn byggðaröskun. Oft hefur nú hallast á varðandi jafnvægið í byggð landsins eins og það var nefnt, en núna hefur hreinn flótti brostið á í byggðarlögunum. Og menn vita allir af hverju. Að vísu hefur komið ný skýrsla pöntuð hjá Þjóðhagsstofnun um það hvort fiskveiðiheimildir og tilfærsla þeirra mundi hafa einhver áhrif á fólk, búferlaflutning í landinu. Ég held ég segi ekkert of mikið þótt mér sýnist að maður sjái fyrir sér hvaða vegferð það mál hefur haft.

Það er nokkuð langt síðan hæstv. sjútvrh. byrjaði að fullyrða að tilfærsla fiskveiðiheimilda í landinu hefði engin áhrif á byggðaröskunina. Honum hefur þótt eðlilegt að hin svokallaða sáttanefnd í sjávarútvegsmálum sendi fyrirspurn til mágs síns, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, að spyrja um þetta augljósa mál sem hver heilvita maður getur sagt sér sjálfur og vafalaust öll endilöng nefndin, hin svonefnda sáttanefnd. Þjóðhagsstofnun lætur hafa sig í að afgreiða þessa pöntun og segir að engin merki séu þess að kvóta- eða fiskveiðistjórnin eins og það er nefnt sé áhrifavaldur í búferlaflutningi í landinu. Þá hafa menn það.

Ég veit ekki til þess, þótt hefðbundnar fjárveitingar séu til fjárlaga og annarra þarfa á landsbyggðinni til handa sveitarfélögunum, að nein breyting hafi orðið á þessu háskalegasta atriði varðandi búsetuna í landinu sem er fiskveiðistjórnin.

Varaformaður fjárln., hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, kom víða við í ræðu sinni um við 2. umr. fjárlaga og var þar að vísu af viti og þekkingu talað eins og hans var von og vísa. En það væri æskilegt að ýmsir kaflar úr ræðu hans kæmust til skila við hæstv. ríkisstjórn. Það hefði mátt ætla af ræðu hans að hann hefði ekki hitt það fólk jafnvel svo missirum skipti að máli og ég tala nú ekki um hæstv. forsrh., formanninn sinn.

Ég gríp, með leyfi forseta, niður í ræðu hv. 5. þm. Vestf. þar sem hann segir:

,,Við stöndum líka frammi fyrir því vandamáli að fiskveiðiráðgjöfin á Íslandi er algerlega háð einu ríkisfyrirtæki, einu rannsóknarfyrirtæki á vegum ríkisins sem hefur gefið okkur ráð nú um nokkuð langan tíma. Ráðin hafa hins vegar dugað skammt þó markmiðið hafi verið það að auka hér fiskstofnana, gera okkur kleift að veiða meira. Það hefur gengið alveg öfugt. Við höfum ekki náð nokkrum árangri og í ár hefur verið ákveðið að veiða minna en áður og var þó lítið fyrir miðað við það sem hefur verið síðastliðin 70 ár við veiðar á þorski á Íslandsmiðum. Við erum bara staddir í þeirri gildru. Þeir sem hafa haldið því fram hér að lítið væri að marka þessa ráðgjafa, hafa fengið að heyra að þeir væru mjög óábyrgir menn og það margsinnis ítrekað. Áfram ætla menn að halda og það virðist þverpólitísk samstaða um það meðal Íslendinga að áfram skuli fylgt ráðum þessara ráðalausu manna.`` --- Frjálslyndi flokkurinn er a.m.k. ekki með í þeirri þverpólitísku samstöðu.

En ég hef ekki orðið þess var að hv. 5. þm. Vestfjarðakjördæmis væri yfirleitt að öðru leyti þversum í neinu sem varðar fiskveiðistjórnina. Hann styður framkvæmd hennar af alefli með því að styðja hæstv. núverandi ríkisstjórn, stefnu sem er á góðri leið með að leggja byggðir kjördæmis hans í eyði. Hann styður frjálst framsal veiðiheimilda eða a.m.k. framkvæmdastjórn þess og alla framkvæmd sem hefur leitt til þess að ótrúlegar veiðiheimildir hafa færst úr kjördæminu hans til annarra landshluta. Og mér dettur ekki í hug að hv. þm. trúi því að það hafi engin áhrif á búferlaflutninga eða búsetu manna í kjördæminu hans eða allt annað sem snertir líf og hag og tilveru fólksins á þeim stöðum. Hann styður milljarða gripdeild lénsherranna. Hann tók þátt í að skjóta í gegn lagagrein sem heimilaði þessum mönnum að skjóta því fé úr landi skattlausu. Það eru ekki milljónir sem þar hafa verið fluttar úr landi, ekki milljarðar heldur tugir milljarða og Ísland nær aldrei um það verðmæti. Og hvernig er það fé fengið? Það er tekið af sameign þjóðarinnar.

Og þessi hv. þm. Vestfjarðakjördæmis styður af öllu afli hæstv. ríkisstjórn sem þessari stefnu framfylgir þótt hann hafi haft hér uppi ýmis gagnrýnisorð sem ég veit að hæstv. ráðherrar taka ekkert mark á.

Hv. þm., fyrrv. útgerðarstjóri á Flateyri, styður stefnu sem lokar fyrir nýliðun í sjómannastéttinni og allir vita hver örlög verða stéttar þar sem nýliðun er útilokuð.

Honum er fullkunnugt um gengdarlaust brottkast afla sem þessi fiskveiðistjórn hefur í för með sér. Og það er ekkert að marka ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna þess að hún er með kolvitlausar tölur inni í reiknilíkani sínu, 10 þús. tonn sem brottkastið á að nema, þar sem menn vita að kynni að nálgast 100 þús. tonn og það kann rétt að vera að við séum að ganga mjög harkalega að þorskstofninum vegna þessa brottkasts.

Í öllum höfnum landsins er stundað svindl og svínarí í framkvæmd þessara laga, endalaust, yfirþyrmandi. En stjórnvöld vilja ekki vita af því vegna þess að ekkert má skyggja á framkvæmd þessara dæmalausu ólaga.

Hvað um skuldir sjávarútvegsins? Og hvað um þátt þessa flutnings fjármagns lénsherranna úr landi? Gæti það ekki haft og hefur vafalaust veruleg áhrif á þann viðskiptahalla sem við stríðum við?

Á síðustu fimm árum uxu skuldir sjávarútvegsins um 80 þús. millj. kr. Þó var markmið, aðalmarkmið fiskveiðilaganna að hagræða í greininni. Hagræðingin felst í þessu. Skuldir sjávarútvegsins stefna í 200 þús. millj. kr. innan skamms. Þetta er hagræðingin sem menn stefndu að. Aðalmarkmiðin voru hagræðing í sjávarútvegi og að bjarga fiskstofnunum.

En hann sagði það rétt, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, að það hefur allt gengið öfugt. Það hefur gengið alveg öfugt öll ráðlegging þessara hv. manna og þessarar ríkisstofnunar sem LÍÚ á nú að vísu stjórnaraðild að og ýmsa grunar að sú stjórnaraðild hafi meiri en lítil ráð í för með sér.

En það voru fleiri sem fengu sinn skammt í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar við 2. umr. fjárlaga. Ég ætla að taka það fram að ég hefði rætt þessi mál þá ef óviðráðanleg atvik hefðu ekki orsakað að mér var það ófært.

Hv. þm. gaf lítið fyrir aðgerðir Seðlabankans og seðlabankastjóra og taldi að ráðgjöf og hegðun þeirra væri bara til bölvunar meðan þeir væru að halda uppi genginu. Í vaxtamálum sagði hv. þm. orðrétt að þær aðgerðir bankans væru fikt --- orðrétt: ,,Fikta, segi ég því að þetta er bara fikt.`` Sagði hv. þm.

En nú vill svo til að Seðlabankanum er stjórnað af hæstv. forsrh., hér um bil einhendis. Og þeir þekkja illa aðalbankastjóra Seðlabankans, Birgi Ísleif Gunnarsson, ef þeim dettur í hug að hann breyti í neinu út af þeim fyrirmælum sem hann fær hjá formanni Sjálfstfl. Birgir Ísleifur Gunnarsson hættir sér aldrei út í neitt nema hann sjái alveg fyrir fram að það muni ekki skaða hann, hvorki á sál né líkama. Hann ætlar sér og og hefur alltaf orðið í meiri hlutanum hver sem hann hefur orðið og fer í einu og öllu eftir þeim fyrirmælum, vegna gengismála t.d. og vegna vaxtamála, sem gefin eru af hæstv. forsrh. í umboði skulum við halda allrar hæstv. ríkisstjórnar.

[16:00]

Og maður getur orðað það svo á vondu máli að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi gefið í ræðu sinni ,,frat`` á stefnu Seðlabankans í gengismálum og vaxtamálum. Og þetta er talsmaður Sjálfstfl. í ríkisfjármálum. Hvað skyldu þeir nú hugsa í Seðlabankanum? Ég skal ekki getum að því leiða, en mér er næst að halda að þeim verði ekki svefnvant vegna þessa því að þeir hafa allt annað skjól. Þeir hafa alveg nægilegt skjól. En Birgir Ísleifur Gunnarsson mundi undir eins leita til hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar ef hæstv. fjmrh. sleppti af honum hendinni ef hann fyndi að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson væri farinn að ráða.

Hv. þm. talaði um að mjög hættulegt væri að toga upp gengið og lýsti efasemdum um alla peningapólitík Seðlabankans eins og hún lagði sig. Skyldi ekkert af þessu berast til eyrna hæstv. forsrh.? Ef svo er, þá er greinilegt að hann gerir ekkert með þetta því ef hann gerði það mundi hann vafalaust svara eins og með hv. þm. Össur Skarphéðinsson að þessi maður hefði ekki rekið sig á vegg heldur hefði hann orðið undir valtara.

Skoðanir þær sem hv. þm., varaformaður fjárln., setti fram í framsögu sinni við 2. umr. fjárlaga gengu í öllum meginatriðum þvert á þá stefnu sem kemur fram í hvert skipti sem hæstv. forsrh. opnar munninn. Og það er eins og ræðuhöld þessa talsmanns ríkisstjórnarinnar í fjármálum og afstaða ráðherranna minni á vísupart Jónasar Hallgrímssonar ,,... og öllu snúið öfugt þó, aftur og fram í hundamó``. Og gætu reyndar orðið einkunnarorð hæstv. menntmrh. í tilefni af verðlaunaveitingunni til Megasar á dögunum --- ,,og öllu snúið öfugt þó, aftur og fram í hundamó``.

En hv. 5. þm. Vestfjarðakjördæmis dró heldur en ekki arnsúg á fluginu þegar hann hóf að ræða kjaramál einkum og sér í lagi hið háskalega kennaraverkfall. Sá sem hér stendur er ekki formælandi verkfalla. Hann þekkti þau af eigin raun og honum hefur verið það heldur þungt í skauti að hlýða á þær umræður sem fram hafa farið til stórbölvunar lausnar málinu á hinu háa Alþingi. Og hann hefur ekki treyst sér og ekki séð ástæðu til að taka þátt í þeim.

Því miður hefur jafnvel hinum varkára hæstv. fjmrh. orðið á í messunni að predika um að þessi stétt hefði bara verkfallsvilja en ekki samningsvilja og allt væri uppi í skýjunum og þess vegna hefði hann leyfi til að grafa höfuðið í sandinn. Það átti aldrei að ræða þetta. Þessi mál eru ekki þess eðlis að menn eigi að reyna að slá keilur eða slá plötur hér út á þær aðstæður.

En hvað um stöðu kennarastéttarinnar? Þegar ég kom í Menntaskólann á Akureyri voru laun og kjör kennara þar með því efsta sem gerðist í ríkisgeiranum. Þeim hefur hrakað svo heiftarlega að engu tali tekur. Og hæfir menn eru hættir að sækja í þessa stétt. Og árangurinn? Hv. þm. ættu og ég veit að þeir hljóta að hnjóta um þetta: Í stórum straumum kemur fólk út úr skólunum ólæst og óskrifandi og nærri því ótalandi. Á því hljótum við að leita skýringar og hún hlýtur að liggja m.a. í þessu. Ábyrgð og mikilvægi stéttarinnar er meira en í tölum verður talið. Þetta eru, eins og þjóðfélagið er úr garði gert, aðaluppalendur barnanna okkar og við þá verður að gera vel. Miðað við hversu kjörum hennar hefur hrakað trúi ég því ekki að aðrar stéttir þjóðfélagsins mundu notfæra sér það þótt kjör þeirra yrðu bætt að sprengja upp allan almennan launaskala í landinu. Það væri óheiðarlegt.

Yfirlýsingar hinnar handónýtu verkalýðshreyfingar ASÍ í þessu máli, um að þeir mundu þegar í stað grípa til sinna vopna ef hagsmunum þessa fólks yrði sinnt, eru ekki mannborulegar svo ekki sé meira sagt. Verkalýðshreyfingin er orðin handónýtt fyrirbrigði, handónýtt afl, þar sem forustumennirnir vilja bara telja peninga í lífeyrissjóðum og vera þar í stjórnum.

Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp örstuttan kafla úr máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, þar sem hann sagði:

,,Af hverju má ekki segja þetta beint út og opinberlega að þessar kröfur séu hreint rugl. Af hverju má ekki segja sannleikann í þessu og það er enginn grundvöllur til neinna kauphækkana á Íslandi, hvorki fyrir einn né neinn, alveg sama hvað hann heitir, hvort hann er röndóttur eða bröndóttur. Það verður að segja það, herra forseti, það verður að tala hreint út um þetta, að við höfum enga getu til þess.``

Það var og. Engir peningar þegar láglaunafólk á í hlut. Eða ellilífeyrisþegar og öryrkjar þar sem birt var opinberlega skýrsla um það nú í gær að nærri þriðjungur af ellilífeyrisþegum er undir lágmarksframfærslutekjum. En það eru til nógir andskotans peningar þegar á að hygla sérhagsmunum, gæðingunum þeirra hjá Sjálfstfl., til þeirra lénsherranna sem hrammsa til sín ekki milljónatugi heldur milljarðatugi og stelast burt með það úr landi skattfrjálst. Þá eru nógir peningar. En ekki til hinna sem verst eru settir.

Þetta er alveg í samræmi við hina nýju stefnu míns gamla flokks sem einu sinni hafði að einkunnarorði ,,stétt með stétt``. Hann hefur snarbreytt um stefnu. Þetta er orðinn klíkuflokkur, hæstv. ríkisstjórn og flokkar hennar orðin klíkuveldi þar sem hugað er að sérhagsmununum. Enda standa þeir útvöldu undir herkostnaði þessara flokka, herkostnaði sem þeir þora ekki einu sinni að upplýsa og tíðkast hvergi í siðuðu landi nema þessu að flokkar gefi ekki upp fjárreiður sínar.

Hv. framsögumenn og talsmenn ríkisstjórnarflokkanna töluðu um það með sanni að ríkisfjármálin væru stýritæki til þess að sigla fram hjá þeim skerjum sem menn sjá augljóslega fram undan og þau eru vissulega til og eitt aðalstýritækið eru ríkisfjármálin. En með hvaða hætti hefur við gerð þessara fjárlaga þetta stýritæki verið nýtt? Ég sé ekki betur af þeim tölum sem fyrir liggja en að hér sé allt látið vaða á súðum, nákvæmlega allt.

Hvaða markmið setti hæstv. ríkisstjórn og fjárlagaforustan? Hvaða markmið settu menn sér við fjárlagagerðina? Það er ekki nóg að segja að nauðsynlegt sé að beita aðhaldi og hafa um það mörg orð ef framkvæmdin gengur ekki eftir. Hvernig er hægt að fá skýr svör við því? Kemur aðhaldið fram við gerð þessara fjárlaga?

Ég fagna því ef hægt er að sýna mér fram á það. Það er áreiðanlega ekki með þeim hætti hægt að segja: Við urðum ekki við öllum óskum. Ég veit nú hvernig undirbúningur fjárlaga fer fram þar sem þeir sem kaupa inn með kaffinu á morgnana í ráðuneytum hrúga saman óskalistunum sínum og senda til fjmrn. Auðvitað er ekkert að marka þann óskalista. Með því að ansa ekki öllu kvabbinu, þá verða ekki færðar líkur fyrir því að menn hafi beitt þessu nauðsynlega stýritæki.

Þetta eru því miður verðbólgufjárlög og greiðsluafgangurinn froðufé. Það er leitt að þurfa að segja þetta af því að manni er ekki sama að þetta skuli vera komið upp á borðið með þessum hætti.

Þess vegna er það, herra forseti, að um leið og ég lýk máli mínu sé ég engin önnur sköpuð ráð en þau að leggja til að hv. fjárln. fái þetta frv. til lokameðferðar þar sem gerð verði tilraun til að skera niður svo um munar og beita þessu stýritæki þá. Þess vegna, herra forseti, hef ég sett saman tillögu sem hér fer á eftir og ég bið forseta að taka við og sjá um meðferð á. Hún hljóðar svo:

,,Þar sem fjárlög eru í núverandi mynd sinni verðbólguhvetjandi samþykkir Alþingi að fresta afgreiðslu þeirra um sjö daga, svo fjárln. gefist kostur á tillögugerð um stórfelldan niðurskurð á útgjaldahlið þeirra.``