Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 16:18:10 (3056)

2000-12-08 16:18:10# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[16:18]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. 3,2 milljarðar vegna vaxta er auðvitað bólgumál. 3,1 milljarður til sveitarfélaga er góðra gjalda vert. En hver er frumástæðan fyrir því að ríkið þarf að rétta sveitarfélögunum sérstaka hjálparhönd nú? Það þarf ekki og ekki eru tök á að rifja það upp nú, en ætli það eigi ekki rætur sínar að rekja alveg sérstaklega til þess hvernig uppgjörið vegna skólamálanna fór fram? Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að mjög hallaði á sveitarfélögin. En auðvitað þarf að sinna þeim.

En þetta eru engin svör við því hvar aðhaldi hafi verið beitt þó nefndar séu skýringar á viðbótunum sem urðu vegna lokafrágangs fjárlaganna. Það er staðreynd að frá lokaniðurstöðu fjárlaganna í fyrra og til þessara núna er 13,5% aukning, vöxtur sem er langt umfram verðlagsforsendur. Þetta eru bara staðreyndir.

Ég spyr af því ég hef verið að mæla hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, vin minn gamlan, máli: Hvernig hefur til tekist í heilbrigðismálunum? Hér hlustaði ég með andakt á hann flytja tilfinningaþrungna ræðu við fjárlagaumræðuna í fyrra þar sem hann sagði að það gæti ekki gengið lengur hvernig menn hefðu haldið á heilbrigðismálunum og þeim gífurlega halla sem á þeim væri.

Hvernig hefur tekist til núna? Eru þetta ekki sömu vandræðin? (EOK: Ég skal koma að því.)