Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 16:20:17 (3057)

2000-12-08 16:20:17# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, EOK
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Við tökum til við og höldum áfram með 3. umr. fjárlaga. Hér hafa talað á undan mér formælendur stjórnarflokkanna í fjárln. og gert nokkuð að umtalsefni fyrst og fremst stöðu efnahagsmála.

Það er helst að segja um þær brtt. sem hér liggja fyrir við 3. umr. fjárlaga að langmesta breytingin sem gerð hefur verið og það sem skiptir máli er að verið er að auka vaxtagreiðslur ríkisins mjög mikið. Reyndar hefur það verið gert á þessu ári að horfið er frá þeirri stefnu sem menn ætluðu sér, þ.e. að borga niður erlend lán. Í stað þess hafa menn tekið innlend. Við erum að gera það og það er ákvörðunin sem kynnt er við 3. umr., sem varðar mestu um efnahagsstjórnina, að taka innlend lán. Markmiðið og tilgangurinn er sá að styrkja með öllu móti Seðlabanka Íslands svo hann geti betur og af meiri krafti unnið að því verkefni sem þeir vilja og ætla sér og ríkisstjórnin vill og ætlar sér, að standa hér að sem mestu jafnvægi í efnahagslífinu, reyna eftir fremstu getu og leggja sig alla fram um að styrkja gengi íslensku krónunnar. Það er tilgangurinn og það er hin mikla breyting sem hér er og verið er að kynna við 3. umr. fjárlaga. (Gripið fram í.) Það er ekki verið að gera þetta í þensluskyni heldur alveg þveröfugt. Það er verið að treysta bankann í sessi svo hann geti frekar átt við viðfangsefni sín.

En í máli stjórnarandstöðunnar hefur það sama komið fram og við 2. umr., að þeir hafa mjög gagnrýnt stöðu ríkisfjármálanna. Nú er það svo, herra forseti, að hvernig sem menn vilja líta á þessa hluti er staða ríkissjóðs í dag betri en hún hefur nokkurn tíma verið á síðustu áratugum. Sú var reyndin áratugum saman, t.d. meðan hv. þm. Sverrir Hermannsson sat hvað lengst á þingi, að ríkisfjármálin voru aðalvandamál hagstjórnarinnar. Hér var bullandi, bullandi rekstrarhalli ár eftir ár og áratug eftir áratug hjá ríkissjóði.

Á undanförnum árum hefur tekist að snúa þessu algjörlega við þannig að Ísland er ekki lengur eins það var, alltaf neðst og til vandræða í samanburði við Evrópuþjóðirnar, heldur er afkoma ríkissjóðs og hins opinbera í dag að mati og reikningi OECD ætluð tæp 3% af vergri landsframleiðslu eða 2,8%. Þetta er mun betri afkoma en flest Evrópuríkin geta státað af, en þá náttúrlega undanskil ég Noreg sem er alveg sér á báti.

Við samanburð er rétt að gera sér grein fyrir því að ef við tökum Evrópulöndin í heild er afkoma hins opinbera þar um 0,2% af þjóðarframleiðslu. Ef við tökum Evrópusambandið er afkoman þar upp á 0,7% og ef við tökum OECD í heild er afkoman upp á 0,4%. Það er gríðarlegur munur að vera með 2,8% í afkomu hjá hinu opinbera miðað við 0,4% hjá OECD.

Ef við notum reikniaðferðir sem stjórnarandstaðan vill stundum nota samanber 2. umr. fjárlaga er þetta mörg hundruð prósent betri afkoma á ríkissjóði Íslands en annarra Evrópuþjóða. En menn nota svona reikning þegar hentar þeim.

Einnig hefur komið fram í máli stjórnarandstöðunnar að þeir hafa sýnt, sagt og bent á að ýmislegt væri sem við skyldum og ættum að forðast og passa okkur á á næstu árum eins og staðan er í dag.

Ég tel þær ábendingar þeirra allra góðra gjalda verðar. Ekki veldur sá sem varar og margt skynsamlegt hefur komið fram hjá þeim. Hins vegar verð ég að segja, herra forseti, að ég er alltaf jafnundrandi þegar ég sit hér og hlusta á formælendur stjórnarandstöðunnar fara tiltölulega skynsamlegum orðum um stöðu efnahagsmála, lesa upp úr spá OECD og spá Þjóðhagsstofnunar um það á hversu viðkvæmu stigi við erum og hversu mjög við þurfum að gæta okkar --- réttilega --- að næstum í hverri viku er haldin smásýning í þingsölum sem stjórnarandstaðan stendur fyrir og umræðuefnið er að átelja ríkisstjórnina, fjmrh. og menntmrh. fyrir að hafa ekki náð samningum við framhaldsskólakennara, átelja það mjög harðlega. Þess vegna skil ég ekki, ef menn líta á ríkisútgjöldin og átta sig á því að laun ríkisins eru yfir 80 milljarðar kr. og eru langsamlega stærsti hlutinn af útgjöldum ríkisins, hvernig þetta sama fólk, sem varar við framtíðinni í efnahagsmálum, getur komið og sagt að semja eigi við aðila sem gera launakröfur upp á tugi og aftur tugi prósenta. Ég næ engu samhengi í þeim málflutningi. Ég hef reynt að vera mjög hreinskilinn í þessu tali og bent mönnum á, alveg sama hvernig við lítum á þetta, alveg sama á hvaða spár við horfum, hvort það er Þjóðhagsstofnun eða OECD eða hverjir, að ekki geti verið ráðrúm nokkurs staðar til þess að Íslendingar geti bætt kjör sín svo neinu nemi á næstu missirum og árum.

Síðan kemur hv. þm. Sverrir Hermannsson hér og segist ekki trúa því að aðrar stéttir komi þá í kjölfarið og krefjist hins sama, segist ekki trúa því, enda væri það óheiðarlegt eins og hann orðaði það. Ég minni á það, herra forseti, að þessi hv. þm. vann í stéttabaráttu lengi fyrir verslunarmenn, mjög lengi, og ætti að þekkja að það hefur aldrei gerst í umræðu eða kröfu um laun á Íslandi að menn tækju ekki mið af samningum hvers annars. Það hefur aldrei gerst. Það ferli liggur alveg nákvæmlega fyrir að menn hafa alltaf tekið mið af samningum annarra. Það liggja meira að segja fyrir í dag yfirlýsingar Alþýðusambands Íslands um að auðvitað muni þeir taka mið af því um hvað verði samið. Allar stéttir, allir starfshópar ríkisins eru með lausa samninga, hver og einn einasti. Þeir hafa þegar lýst sumum kröfum sínum.

Hvernig dettur einhverjum í hug að koma og segja að hann trúi því ekki að aðrar starfsstéttir ríkisins geri launakröfur, enda væri það óheiðarlegt, eins og hv. þm. sagði. Óheiðarlegt. Það getur ekki annað verið, herra forseti, en að hv. þm. Sverrir Hermannsson tali mjög gegn betri vitund. Hann veit og þekkir þetta frá áratuga starfi sínu að það er útilokað annað, það er útilokað annað en að hinir ýmsu starfshópar og hin ýmsu stéttarfélög taki mið af öðrum samningum.

Ég hef hins vegar ekkert farið dult með það, herra forseti, á undanförnum árum að ég tel að gerð hafi verið ákveðin mistök í kjarasamningum. Ég hef margsinnis farið yfir það úr þessum ræðustól að ég tel samninga ríkisins á árunum 1997 og 1998 hafa verið mjög óvarlega, og við erum að súpa seyðið af því í dag. Fyrir liggur að það sem við erum að kljást við í dag og þar sem hætta steðjar að okkur er af hinni miklu einkaneyslu sem er í samfélaginu.

[16:30]

Herra forseti. Ef stjórnarandstaðan hefur áhyggjur af viðskiptahallanum er eins víst að hún má trúa því að allir stjórnarsinnar hafa það líka. (ÖS: Ekki Davíð Oddsson.) Allir hafa áhyggjur af viðskiptahallanum. Það liggur alveg fyrir. En hvað á þá að gera ef við horfumst í augu við viðskiptahallann? Það er rétt að stjórnarandstaðan geri sér grein fyrir því að stefna ríkisstjórnarinnar og viðleitni hennar öll er að verja kaupmátt fólks í þessu landi. Ef markaðurinn gripi til þess að hér yrðu frekari gengisfellingar má alveg búast við því að kaupmáttur fólks færi verulega niður og ríkisstjórnin er af einlægni að reyna að koma í veg fyrir það.

Hvað er þá hægt að gera til þess að verja gengi íslensku krónunnar til þess að vega upp á móti þessum viðskiptahalla? Jú, það er hægt að gera það með því að auka framleiðslu okkar og það eigum við að gera.

Það besta sem við gerðum og það réttasta, númer eitt, er náttúrlega að passa upp á starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja á hverjum tíma, gera það eins aðgengilegt og hugsast getur, lækka skatta á fyrirtækjum til þess að gera þau samkeppnishæfari. Þetta er stórkostlegt atriði sem við verðum að gæta mjög vel að.

Ríkisstjórnin hefur líka lagt sig alla fram á undanförnum árum að reyna að vinna að því að auka hér stóriðju. Það yrði gríðarleg búbót fyrir Ísland og Íslendinga ef okkur tækist að koma á frekari samningum um stóriðju og virkjanagerð á Íslandi. Hins vegar hefur stór hluti stjórnarandstöðunnar allan tímann verið með mikil bolabrögð og miklar efasemdir um þetta, háværar ræður og mikil fundahöld, efast um þetta mjög. Sumir hér inni hafa m.a.s. haldið því fram að það væri mjög röng stefna að efla hér stóriðju, betra væri að fólk sæti heima og prjónaði og saumaði, að mér skildist, og færi svona þjóðlegar að en að vera að því brölti að búa til mikla framleiðslu. En við þurfum mjög á því að halda og fátt mundi hjálpa okkur meira og styrkja betur íslensku krónuna en ef okkur tækist að gera nýja samninga um fleiri álver og skiptir þá engu máli hvort þau yrðu fyrir austan eða vestan eða hvar þau væru. Þar sem við gætum náð slíkum samningum eigum við að gera það þegar í stað.

Í þriðja lagi eigum við möguleika á að auka okkar framleiðslu. Við eigum þá möguleika. Hv. þm. Sverrir Hermannsson gerði mér þann greiða áðan að hann las upp aftur ummæli mín um fiskveðiráðgjöfina sem ég viðhafði við 2. umr. Ég þakka honum mikið fyrir það og þegar ég hlusta á hann lesa þetta er ég sannfærður um að ég hafi engu orði þar við að bæta. Þetta er nákvæmlega eins og ég vildi sagt hafa og þarf þar engu við að bæta. Svona er þetta. Þarna erum við fastir í gildru sem við verðum að komast út úr.

Og hvernig er nú ástandið á Vestfjarðamiðum og alveg norður og austur úr? Hafrannsóknastofnun er í dag að loka allri fiskislóðinni, ofsækja togaraflotann, bókstaflega ofsækja hann. Og hvar stöndum við? Við stöndum þannig að við erum með fjóra stóra árganga sem eru að alast upp, fjóra gríðarlega stóra árganga, (Gripið fram í: Einn gríðarlega stóran.) fjögurra ára, þriggja ára, tveggja ára og eins árs fisk. Það liggur líka fyrir að vaxtarhraði fisksins er að fara niður en ekki upp. Hvað er verið að vernda? Hvað er verið að vernda? (SvH: Hver stjórnar öllu þessu eiginlega?) Ætli það sé ekki Davíð Oddsson? (Gripið fram í.) Er það ekki? Var það ekki sagt hér áðan? Það er gott að menn japli á því með jólasteikinni að hann beri ábyrgð á þessu öllu saman.

Nei, herra forseti. Þannig er að við höfum, eins og ég sagði áðan, ríkiseinokunarstofnun í hafrannsóknum og hennar orð og hennar meiningar eru lög. Allir sem gagnrýna það eða láta sér detta í hug að efast nokkuð um það eru úthrópaðir óábyrgir menn. Það er enginn sem hlustar á viðvaranir sjómanna. Enginn vill taka inn í þetta dæmi allan reynsluheim þeirra fjölda manna sem stunda hér fiskveiðar.

Í gærkvöldi sendu áhafnir og skipstjórar einna 30 eða 40 togara áskorun um að þessari vitleysu linnti. Í staðinn fyrir að hrekja alla togarana í burtu verðum við að horfast í augu við að auðvitað eigum við og verðum við að veiða þennan smáfisk. Við eigum að veiða þennan smáfisk þannig að stofninn geti lifað. Það getur enginn sett á óendanlega. Það er ekki hægt að setja á óendanlega. Það verður að vera nægt fæðuframboð. Við eigum að veiða þennan smáfisk og við getum gert það mjög auðveldlega og það þarf ekki einu sinni breytingu á lögum um fiskveiðistjórn. Við eigum að leyfa það að veiða undirmálsfisk og koma með hann að landi utan kvóta. Ef menn veiða þriggja, fjögurra ára fisk, ætli það séu þá ekki svona 30--40%. Hann kæmi þá hér að landi, herra forseti. Honum verður örugglega hent ella.

Við eigum að koma með þennan fisk að landi. Þannig styrkjum við útgerðina sem stendur illa. Þannig styrkjum við útflutning Íslendinga. Við eigum fiskvinnslustöðvar sem eru vannýttar. Við eigum skip sem eru vannýtt. Við eigum líka markaði, bæði ferskfiskmarkaðinn á Humber-svæðinu og við eigum freðfiskmarkað í Evrópu og Bandaríkjunum. Við eigum saltfiskmarkaði um alla Evrópu. Við höfum meira að segja skreiðarmarkaði opna í dag.

Þetta liggur allt fyrir, engin fjárfesting. Þannig getum við aukið útflutningsframleiðslu okkar um 22--25 milljarða á næsta ári. Það mundi styrkja stöðu okkar svo um munaði. Því segi ég, herra forseti, að kominn er tími til að menn úr öllum flokkum hafi kjark til þess að leiða okkur út úr þeirri gildru sem fiskveiðiráðgjöfin er. Hún er algjör efnahagsgildra. Hins vegar er rétt að ég taki fram sem allir mættu vita sem hafa litið á þessi mál, að í dag er þörf á því að vernda stórfisk því það er mjög lítið af honum þvert ofan í það sem menn trúðu á hjá þessum meisturum fyrir nokkrum árum, þ.e. að upp mundi rísa stór og sterkur þorskstofn. Hann gerði það ekki af því hann hafði ekki fæðu. Hann át alla rækjuna fyrir norðan og hann fór síðan suður eftir og hann hrygndi og hann dó. Hann hafði ekki fæðu.

Við megum ekki endurtaka þetta. Við verðum að komast út úr þessari gildru svokallaðra sérfræðinga því annars erum við í vondum málum.

Herra forseti. Ég vil því segja og meina að við Íslendingar getum ef við höfum kjark og vilja til staðið ákaflega vel. Við eigum ráð gagnvart þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Við eigum ráð og við getum vel gert þetta. Ísland getur vel haldið áfram á þeirri farsældarbraut sem við höfum verið á síðustu tíu árin. Við getum það vel en til þess þurfum við kjark. Við þurfum að gera þetta og ég bið menn að reyna að reka af sér slyðruorðið, hætta að hrópa á þá sem hafa verið að gagnrýna þessa stofnun, reyna að hlusta á sjómenn Íslands um hvað er að gerast á miðunum, koma nú og bjarga okkur sjálfum og má þá einu máli skipta hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Við Íslendingar stöndum mjög vel. Ríkisfjármálin eru mjög góð. Við erum hluti af þeirri örlitlu prósentu mannkynsins sem býr við gríðarlega góð kjör. Við eigum að þakka það. Við eigum að vera menn til að halda áfram á þeirri braut.

Ég séð ástæðu til þess núna þegar ég lýk máli mínu að þakka sérstaklega meðnefndarmönnum í fjárln., sérstaklega stjórnarandstöðuþingmönnunum fyrir sérlega ánægjulega og málefnalega og glögga umræðu. Við höfum þurft að vinna mikið saman á undanförnum mánuðum. Það gildir miklu við svona starf að menn komi jafnheiðarlega og eindregið fram og þeir hafa allir gert þessa tvo eða þrjá síðustu mánuði sem við höfum starfað saman.