Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 16:39:34 (3058)

2000-12-08 16:39:34# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[16:39]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að breytt hefði verið um stefnu og vaxtagreiðslur auknar til þess að styrkja Seðlabankann í viðfangi við gengismál og vaxtastefnu.

En má ég vitna, herra forseti, í tvær setningar hv. þm. frá 2. umr. fjárlaga þar sem hann sagði:

,,Ef við drögum úr viðskiptahallanum gerist það með því að gengið sígur áfram. Ég ætla ekkert að segja til um það hver hin rétta staða gengisins er. Ég veit það ekki og ég veit líka að þeir í Seðlabankanum vita það ekki heldur. Markaðurinn einn mun ráða því. Hann mun segja til um það. Við getum ekkert annað og eigum ekki að gera annað en viðurkenna að hann segi satt og rétt um efnahagsstöðu Íslands. Ég ætla að vona að menn átti sig á því að tilburðir Seðlabanka okkar til að halda uppi hærri vöxtum til langframa en í umhverfinu standast ekki.``

Hann lýsti í ræðu sinni frati á Seðlabankann og starfsemi hans. Ég mun koma að því í seinni athugasemd minni.

(Forseti (GuðjG): Forseti vill geta þess að þegar svo margir veita andsvar verður að stytta ræðutímann vegna þess að andsvör við hverja ræðu mega ekki standa lengur en 15 mínútur.)