Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 16:40:56 (3059)

2000-12-08 16:40:56# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Viðleitni ríkisstjórnarinnar í dag til að setja peninga í Seðlabankann og geyma peninga þar er til að styrkja bankann til þess að bankinn geti staðið þetta af sér og hafi þann styrkleika sem þarf til þess að reyna að verja gengið. Það er meining ríkisstjórnarinnar og vilji hennar að reyna af öllu afli og leita allra leiða til þess að svo verði vegna þess að ríkisstjórnin er að reyna að verja kjör þjóðarinnar, alls almennings í landinu. Það er hinn einlægi vilji hennar. Um það snýst þetta. Þess vegna er svo mikilvægt að styrkja bankann í starfi sínu.

Hitt kemur svo þessu máli ekkert við þó að ég hafi um langan aldur, og ég held nokkrir aðrir fleiri, haft enga trú á hávaxtastefnu þessara banka. (Gripið fram í.) Það er allt annað mál þó ég hafi enga trú á því, og ég skal endurtaka þau ummæli, að slík hávaxtastefna stenst ekki til lengdar.