Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 18:32:01 (3071)

2000-12-08 18:32:01# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[18:32]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. 3. þm. Norðurl. e. segir að hækkanir eru vegna búvörusamningsins, þær eru vegna skógræktar, en það hefur verið gert myndarlegt átak í þessum málum báðum, og til þess að gera það átak þarf fjármagn. Það er ljóst.

Varðandi Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þá var aukafjárveiting til hans og síðan á að vinna áfram að hans málum. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni í dag hvaða áform eru um það efni og ég tel að það eigi að vinna þannig að þeim að skólinn verði efldur. Það er ætlun okkar með Hólaskóla einnig, en þar vorum við með fjárveitingar á fyrra ári til að styrkja stöðu skólans.

Hvað Skógrækt ríkisins varðar þá eru söluheimildir fyrir hendi sem ég hef þegar gert grein fyrir og ætla ekki að endurtaka í þessu andsvari mínu. En ég tel mikilvægt varðandi landbrn. að þar hefur verið gert gríðarlega myndarlegt átak í skógræktarmálum og einnig þarf verulegt fjármagn í búvörusamninginn til þess að standa við hann. Það tel ég langmikilvægasta málið í þessu efni, en ég dreg ekkert úr því og er sammála hv. þm. að auðvitað þurfa stofnanir landbúnaðarins að hafa tilverugrundvöll og það er langt í frá að meiri hluti fjárln. sé þeirrar skoðunar að svo eigi ekki að vera.