Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 18:54:20 (3074)

2000-12-08 18:54:20# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[18:54]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að koma inn í umræðuna. Það er nauðsynlegt að hann skýri ýmislegt sem hann hefur verið að segja og það hefur hann gert með vissum hætti.

Ég er svo stálheppinn að ég er næsti maður á mælendaskrá þannig að ég mun þá ræða ýmislegt sem tengist því sem hann sagði, viðskiptahalla og öðru slíku, en það er eitt sem hæstv. forsrh. sagði sem ég hnaut um. Hann sagði: Öll grundvallaratriði efnahagslífsins eru traust. Hæstv. utanrrh. hefur hins vegar sagt að hættumerki séu uppi og að vextir séu óviðunandi. Talsmaður Framsfl., hv. þm. og formaður fjárln., Jón Kristjánsson, hefur sagt að viðskiptahallinn sé beinlínis skaðlegur. Og ég spyr hæstv. forsrh.: Er hann sammála þessu eða er ágreiningur uppi um stjórn efnahagsmála innan ríkisstjórnarinnar?