Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 18:55:16 (3075)

2000-12-08 18:55:16# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[18:55]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn ágreiningur um stjórn efnahagsmála innan ríkisstjórnarinnar. Ég er auðvitað sammála hæstv. utanrrh. um að nauðsynlegt er að vaxtastig sé sem hagfelldast og í mestu jafnvægi og í samræmi við það sem annars staðar gerist. En við höfum gert nákvæmlega sama og til að mynda Bandaríkjamenn gerðu. Þegar þenslueinkenni voru í þjóðfélaginu þá hækkuðum við vexti, ekki vegna þess að við teldum, hvorki ég né hæstv. utanrrh., að í sjálfu sér væri æskilegt að hækka vexti, við höfðum verið að berjast fyrir því að hafa vexti lága. En við samþykktum fyrir okkar leyti, þó að það sé hlutverk Seðlabankans, að vextir hækkuðu til þess að slást við þensluna. Og þetta er að bera árangur.

Við verðum að gá að því að vaxtahækkanir eru langtímaaðgerðir. Slíkar hækkanir virka ekki á einum degi. Það tekur tíma að vaxtastigið hafi þau áhrif sem að er stefnt og við sjáum að að því er stefnt. Þá er auðvitað þýðingarmikið, þegar efnahagslífið hefur náð þessu jafnvægi sem við höfum verið að kosta kapps við að ná, að stuðla að því að vextir lækki. Þetta er tæki sem Seðlabankinn með samþykki ríkisstjórnarinnar beitir á tilteknu skeiði til þess að halda niðri þenslunni. En að sjálfsögðu er okkur báðum, mér og hæstv. utanrrh., keppikefli að vextir lækki eftir að þessi mjúka lending hefur náðst sem við erum nú óðfluga að stefna í.