Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 19:01:18 (3079)

2000-12-08 19:01:18# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[19:01]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það gerist í öllum löndum og á öllum tímum að menn hafa það misjafnt, það vitum við vel. Sumir reyna að slá sér upp á þeim efnum og þykjast betri vinir þessa fólks en aðrir og sérstaklega verðum við þá væntanlega hinir miklu óvinir þessa fólks. Ég lít ekki á mig sem slíkan mann.

Hins vegar er ánægjulegt og gleðilegt þegar efnahagskerfið þróast þannig eins og maður sér á öllum skýrslum að fólk festist ekki með sama hætti í fátæktargildrum og áður, að menn færast til, menn færast til betri vegar, menn færast til betri efna, menn færast í rétta átt en festast ekki í gildrum vegna þess að þeim eru ekki boðin nein tækifæri. Það er meginatriðið.

Hv. þm. heldur því fram að bara efnafólk, eins og hann kallar það, hafi staðið fyrir því að innflutningur hafi aukist og þensla hafi skapast. Þá er efnafólk á Íslandi gríðarlega fjölmennt og það er gaman að heyra það. Hv. þm. hlýtur að fagna því með okkur að efnafólk er þá alveg gríðarlega fjölmennt sem tekur þátt í því. Við höfum væntanlega öll tekið þátt í því að eftir að fór að rofa til höfum við látið aðeins meira eftir okkur en við hefðum kannski átt að gera. Ég býst við því að við öll höfum tekið þátt í því í þessum sal ef menn líta hver í sinn barm.

Á hinn bóginn er það auðvitað þannig og verður því miður alltaf þannig að einhverjir eru lakast settir í þjóðfélaginu. En það er þýðingarmikið að skapa þeim tækifæri til að komast upp úr þeim sessi, skapa þeim tækifæri til sjálfshjálpar og að þeir finni tækifærum sínum og þeir finni getu sinni viðspyrnu til að bæta kjör sín og hag. Ég fullyrði að í þessum sal er enginn betri í garð almennings en annar. Við viljum því öllu vel.

Ég efast ekkert um að hv. þm. sem talaði síðast er sannfærður um að hann vill öllu þessu fólki vel. Ég vil taka það fram að það vil ég líka.