Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 20:18:31 (3083)

2000-12-08 20:18:31# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[20:18]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hér var flutt mikil ræða með leikrænum tilþrifum. Ég verð að óska hv. þm. til hamingju með árangurinn, mér fannst honum takast vel til í leiklistinni. Hins vegar gaf hann sjálfum sér ekki mjög háa einkunn. Hann gat þess að hann hefði mjög lengi haft uppi varnaðarorð um ástandið í efnahagsmálum og þróun og niðurstaðan væri sú að það hefði enginn hlustað á hann eða tekið mark á honum. Hins vegar bætti þingmaðurinn við að þegar formenn stjórnarflokkanna töluðu þá hlustuðu allir. Þetta fannst mér mjög góður vitnisburður um þessa þrjá formenn og geri engan ágreining við þingmanninn um hann.

Þingmaðurinn dregur upp tiltekna mynd af efnahags\-ástandinu og talar fyrir þeirri skoðun sinni að váboðar séu uppi og ég vil því henda á lofti spurningu sem þingmaðurinn varpaði upp sem var: Hvað vil ég gera? Eða með öðrum orðum hvað vill hv. þm. Össur Skarphéðinsson gera til viðbragða við þeirri stöðu sem hann telur vera uppi? Hann spurði þessarar spurningar en hann svaraði henni ekki. Ég vil því ganga eftir svörum þingmannsins við þeirri stöðu sem hann telur vera uppi í efnahagsmálum.

Ég tek eftir því að þingmaðurinn sagði: Við erum ekki stuðningsmenn þess að hækka skattana. Samfylkingin stóð í miklum umræðum til að tala gegn heimildum sveitarfélaga til að hækka útsvar vegna þess að Samfylkingin styður ekki hækkun skatta svo það liggur fyrir að ekki er það skattahækkun sem er úrræði hv. þm. Hann sagði líka að ríkisstjórnin væri að stela 10 milljörðum af öldruðum og öryrkjum, (ÖS: Nei.) þannig að hann vill væntanlega hækka þau útgjöld um svo mikið og kannski meira. Þá spyr ég: Hvað er það sem hv. þm. telur að eigi að gera?