Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 20:23:02 (3085)

2000-12-08 20:23:02# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[20:23]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Viðbrögð við þeirri mynd sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson dregur upp þurfa ekki að vera mjög flókin. Það er ákaflega skýrt hvernig hann lýsir ástandinu með þenslu og verðhækkunum þannig að viðbrögð við því hljóta að vera skattahækkanir eða niðurskurður. Ég sé ekki aðrar hagfræðilegar úrlausnir á því. Þegar ég spyr hv. þm. hvað hann vilji gera til að takast á við þann vanda sem hann sér uppi þá svarar þingmaðurinn: Ég vísa til tillögu formanns Frjálsl. fl., Sverris Hermannssonar. Það eru svörin frá formanni Samfylkingarinnar að vísa til tillögu formanns Frjálsl. fl. sem hefur verið lögð hér fram á borð um niðurskurð ríkisútgjalda, ekki tillögu Samfylkingarinnar.

Hins vegar er á borðunum hver tillagan á fætur annarri frá þingmönnum Samfylkingarinnar um aukin ríkisútgjöld og nú síðast ein sem var að detta á borðið hjá hv. þm. og þarf að ræsa út þingmenn til að greiða atkvæði um afbrigði svo að taka megi fyrir þessar nýju útgjaldatillögur þingmanna Samfylkingarinnar. Herra forseti. Þessi málflutningur talsmanns og formanns Samfylkingarinnar í efnahagsmálum er algjörlega með endemum. Þvílík steypa, herra forseti.