Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 20:24:33 (3086)

2000-12-08 20:24:33# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[20:24]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. verður að lesa allar tillögur Samfylkingarinnar. Samkvæmt þeim tillögum sem við höfum lagt fram þá eykst afgangur ríkissjóðs, hann eykst um 2,6 milljarða. Það hlýtur auðvitað að skipta máli, ekki síst fyrir eyðsluklær eins og hv. þm. stjórnarliðsins í þessum efnum.

Ég segi það síðan, herra forseti, að ég kveinka mér ekki undan því að vera spyrtur saman við hv. þm. Sverri Hermannsson í efnahagsmálum. Ég verð að segja það að ég hef fáar ræður heyrt betri en þá sem hv. þm. flutti í dag. Hafi nokkrum tekist að skera sundur og saman efnahagsstefnu hv. ríkisstjórnar þá var það hv. þm. Sverrir Hermannsson, formaður Frjálsl. fl., í glæsilegri ræðu sinni.

Herra forseti. Rétt er að það komi fram að ef ríkisstjórnarflokkarnir eru reiðubúnir og telja að ástandið hafi náð þeirri stöðu núna að það verði að fara í að skera niður útgjöld ríkisins með einhverju móti þá er ég til í það. Herra forseti. Ég hef meira að segja reynslu í því umfram hv. þm. Kristin H. Gunnarsson vegna þess að ég hef gert það áður. Ég hef lent í því að sigla með ríkisstjórn í gegnum kreppu og ég þekki ráðin sem menn gripu til. Ástæðan fyrir því að hv. þm. nýtur nú þeirrar vildar og ágætu stöðu að vera í stjórnarliði sem nýtur góðæris, góðs árferðis í samfélaginu, á rætur sínar að hluta að rekja til þeirra erfiðu aðgerða sem sú ríkisstjórn greip til.

Herra forseti. Það liggur fyrir að menn sem hafa talsvert meira vit en a.m.k. ég en örugglega miklu minna en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þ.e. menn á borð við Yngva Örn Kristinsson, yfirmann peningamálasviðs Seðlabankans til skamms tíma, hafa lýst því yfir að slakinn sem hv. þm. og fleiri þingmenn stjórnarliðsins eru ábyrgir fyrir í ríkisfjármálum sé að hluta til orsök þess ástands sem nú er uppi. Sá ágæti hagfræðingur sagði beinlínis að sú stefna væri skaðleg fyrir atvinnulífið nú um stundir.