Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 20:31:36 (3088)

2000-12-08 20:31:36# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[20:31]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Við erum að ljúka umræðu og afgreiða býsna góð fjárlög fyrir árið 2001. Ríkissjóður skilar, eins og hér hefur verið minnst á oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, 34 milljörðum í afgang. Þetta hefur ekki gerst fyrr. Áður hefur verið þensla í þjóðfélaginu eins og nú en hins vegar hefur aldrei slíkur afgangur verið á ríkissjóði. Því má segja að með þessu séu stjórnvöld að vinna gegn verðbólgunni, að hleypa ekki þessum fjármunum út heldur halda þeim eftir.

Spurningar voru um að hafa enn þá meiri afgang á fjárlögum, mörgum þykir vissulega of skammt gengið. Þó má á það benda að ríkisstjórnin reiknaði með við framlagningu fjárlagafrv. í haust að skila afgangi upp á um 30 milljarða. Þeir urðu 34 miðað við núverandi tillögur og niðurstöður. En það er líka á það að líta að erfiðara er að hamla gegn útgjöldum til góðra mála og verkefna þegar verulegur afgangur er á fjárlögum. Þess vegna er erfiðara að standa gegn ýmsum þörfum útgjöldum sem auðveldara er að segja þegar illa árar að sé ekki möguleiki að sinna.

Efnahagsstjórnin hefur tekist vel á undanförnum árum og atvinnulífið einnig svarað því vel. Það er töluverður kraftur að byggjast upp í ýmsum greinum, ekki síst tölvugeiranum og allri slíkri vinnslu. Viðskiptahallinn er vissulega mikill og hann er verkefni sem þarf að bregðast við en ekki endilega alvarlegt áhyggjuefni. Hann er verkefni sem þarf að bregðast við. Hann er kominn til vegna versnandi viðskiptakjara á ýmsum greinum í útflutningi og aftur móti hækkaðs verðs á ýmsum innflutningsvörum t.d. og ekki síst á olíu.

En hvernig á að bregaðst við, hvernig á að fjármagna viðskiptahallann? eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hér um áðan. Því er til að svara að þenslan er vissulega að minnka. Það er samt sem áður alveg ljóst að til þarf að koma ný og arðbær fjárfesting í landinu því að fleiri traustar stoðir vantar fyrir atvinnu- og efnahagslíf. Til þarf að koma fjárfesting, erlend fjárfesting í iðnaðaruppbyggingu með því sem henni fylgir í umsvifum og jákvæðum áhrifum á efnahagslífið. Viðskiptahallinn vex að sjálfsögðu við það til skamms tíma en samt sem áður er það svo að fyrir efnahagslífið er slík innspýting fjármuna til góðs þegar lengra er litið. Þeim framkvæmdum, sem halda núna uppi atvinnustiginu í landinu í atvinnuuppbyggingu, lýkur innan tveggja ára og því er nauðsynlegt að horfa til þess strax á komandi ári að tryggja áframhaldandi góðæri og traustan efnahag með þeim ráðstöfunum.

Herra forseti. Ég hef verið að horfa til síðustu ára og velta fyrir mér breytingum sem hafa orðið við fjárlagagerðina á síðustu árum. Vinnubrögð og fyrirkomulag við fjárlagagerð hefur töluvert breyst. Rammafjárlögin, með meiri ábyrgð út til fagráðuneyta frá fjmrn. hafa bætt ýmsa hluti, mættu vissulega virka betur með meira aðhaldi á fagráðuneytin en áætlanir eru allar orðnar miklu öruggari. Lögin um fjárreiður ríkisins hafa miklu breytt til batnaðar og stjórnvöld og Alþingi hafa þróað ýmsar mikilvægar eftirlitsstofnanir og stjórnir til þess að hafa betri stjórn og eftirlit með ráðstöfun opinberra fjármuna og það er vissulega vel, nú er orðið miklu meira öryggi í þeim greinum.

Mesta breytingin hefur þó orðið vegna þess að fjárlögin voru sett á rekstrargrunn í stað greiðslugrunns áður. Með því hefur fengist miklu betri yfirsýn yfir útgjöld og fjárskuldbindingar ríkisins. Það hefur verið gott og ánægjulegt að eiga þátt í og fylgjast með þessum breytingum sem er auðvitað aldrei lokið en ég vil segja að öryggi í fjárreiðum og fjármálum ríkisins er orðið miklu meira en það var með betri og styrkari áætlunum þannig að við getum haldið áfram að tryggja efnahagslegan stöðugleika í landinu svo fremi að ytra umhverfi stórspillist ekki.

Ég mun ekki fara út í einstaka liði í brtt. okkar í meiri hluta fjárln. við þessa umræðu. Hækkanir hafa orðið til margvíslegra menningarverkefna, til skógræktar, heilbrigðismála, rekstrar símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni, allt eru það góð og gild mál og vissulega mörg, mörg fleiri, og svo eru líka öll hin málin sem við hefðum viljað styrkja og veita fé til en áttum ekki kost þrátt fyrir það að mikill afgangur væri á fjárlögum.