Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 21:48:58 (3093)

2000-12-08 21:48:58# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[21:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta mikilvæga skref sem hv. þm. lýsir hér varðandi áform ríkisstjórnarinnar í barnabótum er nú ekki stærra en svo að þegar Framsfl. tók við árið 1995 var ótekjutengdi hluti barnabótanna að meðaltali 40.000 kr. Nú beitir Framsfl. sér fyrir því að ótekjutengdi hluti barnabótanna verði 33.000 kr. en ekki 40.000 kr. eins og hann var þó 1995. Framsfl. beitir sér fyrir því að lækka lítillega skerðingu barnabóta á næstu þremur árum og verja til þess 2 milljörðum kr. Engu að síður verður eftir þrjú ár minna varið til barnabóta en var árið 1995 og heimilum sem fá barnabætur hefur fækkað um helming. Þannig efnir Framsfl. loforð sín. Því skal einnig haldið til haga að Samfylkingin telur að barnabæturnar hafi sérstöðu og á það skal minnt að Ísland er eitt fárra ríkja innan OECD sem tekjutengir barnabætur.