Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 21:50:30 (3094)

2000-12-08 21:50:30# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[21:50]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Fjármagnseigendur eru dekurbörn hins íslenska hagkerfis og guðforeldrar hins íslenska hagkerfis er ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Dekurbörn þurfa lítið fyrir lífinu að hafa. Þau lifa í vellystingum praktuglega, maka krókinn í umboði ríkisstjórnarinnar og láta peningana sína vinna fyrir sig. Fjármagnseigendurnir eru skjólstæðingar ríkisstjórnarinnar, ekki atvinnulífið eða heimilin í landinu, sama hversu oft framsóknarmenn reyna að halda því fram. Meðan dekurbörnin þurrka súkkulaðið úr munnvikunum safna heimilin, heimili venjulegra ráðdeildarsamra Íslendinga skuldum alveg sama hversu forráðamenn þeirra leitast við að sýna aðhald og útskýra fyrir börnunum sínum að peningar vaxi ekki á trjánum. En það er erfitt, herra forseti, fyrir börn að trúa því þegar þau hafa dekurbörn ríkisstjórnarinnar fyrir augum. Börnin sem eiga að fá leyfi til að kaupa sig fram fyrir venjulegt fólk í biðröðinni eftir læknisþjónustu, börnin sem ríkisstjórnin ætlar að setja á stofn einkaskóla fyrir svo þau geti orðið afburða dekurbörn, fær um að halda áfram að láta fjölskylduauðinn búa til meiri peninga fyrir sig.

Herra forseti. Leikreglurnar sem ríkisstjórnin hefur sett eru óréttlátar og þær eru til þess fallnar að breikka bilið á milli ríkra og fátækra á Íslandi. Þar eru sömu reglur á ferð og fært hafa örfáum einstaklingum í hendur stærstan hluta auðæfa heimsins, enda er nú svo komið hér á landi að það eru til orðnir nokkrir útvaldir einstaklingar sem hafa náð að sölsa undir sig þjóðarauðinn. Og nú herma fregnir, herra forseti, að ábyrgðartilfinning hinna vellauðugu sé ekki meiri en svo að auðurinn sé nú óðum á leið úr landi. Svona virkar stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

Veldisvöxtur peninganna í vestræna hagkerfinu ber ekki vott um heilbrigt hagkerfi. Ó nei, slíkur vöxtur er ónáttúrulegur enda fyrirfinnst veldisvöxtur sem slíkur, vöxtur sem lýtur sömu lögmálum, einungis við óheilbrigðar kringumstæður í ríki náttúrunnar og þar, herra forseti, er hann kallaður krabbamein.

Alræði markaðsaflanna sem ríkisstjórnin lofar og prísar grefur undan jöfnuði og réttlæti í mannlífinu alveg eins og önnur ónefnd alræðisstefna gerði á öðrum stað í heiminum fyrr á þessari öld.

Íslendingar tóku á móti góðum gesti fyrir skemmstu, þeim djúpvitra rithöfundi, Günther Grass. Honum mæltist vel þegar hann tjáði sig um pólitíska fátækt vesturlandabúa. Hann sagði eitthvað á þá leið að vestrænt samfélag byggi nú einungis við eitt hugmyndakerfi, hugmyndakerfi kapítalismans, og kapítalisminn væri að því leyti eins og kommúnisminn að hann tryði sínum eigin lygum. Herra forseti. Ég hef tilhneigingu til að vera honum sammála.

Hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa við þessa umræðu farið vítt og breitt um sviðið, jafnt nú við 3. umr. sem og 2. umr. Við höfum gagnrýnt fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir að það auki á misrétti í stað þess að auka jöfnuð og réttlæti. Í brtt. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hér við 3. umr. leggjum við mesta áherslu á tillögur til framhaldsskóla, tillögu til félagslegra leiguíbúða og átaks í byggingu félagslegs leiguhúsnæðis. Við leggjum áherslu á heilbrigðismál, eflingu félagslegs forvarnastarfs og við leggjum áherslu á að framhaldsskólarnir verði efldir.

Þar að auki leggjum við áherslu á að náttúruvernd og fjölsóttir ferðamannastaðir verði efldir og bragarbót gerð á ástandi fjölsóttra ferðamannastaða. Auk þessa erum við meðflutningsmenn að tillögum með hv. þm. Frjálslynda flokksins um ýmis mál er lúta að sjúkratryggingum, lífeyristryggingum, barnabótum o.fl.

Það kemur í minn verkahring í þessari umræðu, herra forseti, að gera sérstaklega grein fyrir tveimur þáttum í brtt. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og er þar um að ræða tillögur er varða Ríkisútvarpið og tillögur er varða umhverfismál.

Herra forseti. Varðandi Ríkisútvarpið þá er nú svo komið að starfsmenn þess, fjármálastjóri þess og útvarpsstjóri sjálfur hafa farið bónleiðir bæði til hv. menntmn. og hv. fjárln. mörg ár í röð til þess að knýja fram heimild til að hækka afnotagjald Ríkisútvarpsins. Ferðir þessara heiðursmanna hafa engum árangri skilað, nákvæmlega engum, herra forseti, því talan sem hv. fjárln. leggur til að Ríkisútvarpið fái á þessum fjárlögum er nákvæmlega sú sama nú og þegar frv. var lagt fram.

Herra forseti. Í afkomuspá fyrir Ríkisútvarpið er gert ráð fyrir því að niðurstaða sameiginlegs rekstrarreiknings útvarps og sjónvarps og framkvæmdasjóðs verði nálægt núllpunkti. Þessari niðurstöðu verður þó að taka með fyrirvara því rúmlega 3% sveifla í gjöldum eða tekjum getur þýtt u.þ.b. 100 millj. kr. tap.

Væri gert ráð fyrir svipuðum rekstri á næsta ári hjá Ríkisútvarpinu og verið hefur í ár er ljóst að 18,6% hækkun afnotagjalda þarf að koma til og um það hefur Ríkisútvarpinu verið synjað. Ekki fæst eitt einasta prósent. Ein af viðbárunum, herra forseti, er sú að afnotagjöldin vegi svo þungt í vísitölu neysluverðs. En sannleikurinn er sá að 18% hækkun afnotagjalds Ríkisútvarpsins mundi einungis vega sem 0,11% hækkun á vísitölu neysluverðs. Fyrirsláttur hv. fjárln. í þessu efni er því léttvægur.

Þess vegna leggur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð til, svo bjarga megi þessari merku menningarstofnun frá þeirri lágkúru sem hún er nú ofurseld, að Ríkisútvarpið fái sérstakt framlag úr ríkissjóði á næsta ári til þess að bæta rekstrarstöðu sína og styðja dreifikerfið upp á 380 millj. kr.

Herra forseti. Um eitt framlag yrði að ræða. Í þessari brtt. er ekki lagt til að afnotagjaldið verði hækkað en gert ráð fyrir því að 380 millj. kr. verði greiddar sem eingreiðsla til Ríkisútvarpsins svo það geti staðið við skuldbindingar sínar og borið höfuðið hátt eins og slíkri menningarstofnun sæmir í samfélagi okkar í dag.

Herra forseti. Þá geri ég grein fyrir brtt. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á þskj. 476 er varðar Náttúruvernd ríkisins. Við 2. umr. um frv. til fjárlaga 2001 lögðu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fram fjölda tillagna er lutu að umhverfisvernd og náttúruvernd. Í þeim tillögum lögðum við til 200 millj. kr. sem ættu að renna í að styrkja fjölsótta ferðamannastaði og sjá þeim fyrir öflugu viðhaldi og uppbyggingu. 100 millj. kr. af því gerðum við ráð fyrir að ættu að fara til Ferðamálaráðs til þessara nota og aðrar 100 millj. kr. til Náttúruverndar ríkisins. Einnig gerðum við tillögur um sérstaka uppbyggingu og eflingu þjóðgarðanna okkar.

Þessar tillögur hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs voru að sjálfsögðu felldar á Alþingi eins og okkur öll rekur minni til. En við gefumst ekki upp, herra forseti, og leggjum nú til að Náttúruvernd ríkisins fái viðbótarframlag á liðinn Þjóðgarðar og friðlýst svæði upp á 90 millj. kr.

Til þess að árétta hversu lítill hluti það er af því fjármagni sem þörf er á í þetta viðamikla verkefni, get ég hér enn orða hæstv. umhvrh. sem hefur haldið því fram oftar en einu sinni úr þessum ræðustól að til þess að koma fjölförnustu ferðamannastöðunum okkar í það horf að þeir geti tekið við þeim ferðamannastraumi sem sækir þangað þurfi 430 millj. kr. Herra forseti. Ríkisstjórnin er ekki að standa sig í þessum málaflokki.

[22:00]

Þá vil ég gera grein fyrir brtt. á þskj. 479. Svo sem sjá má á 53. brtt., d-lið á þskj. 457 frá meiri hluta fjárln. gerir meiri hlutinn ráð fyrir sérstöku yfirliti undir heitinu Ýmis verkefni hjá umhverfisráðuneyti. Þar er gert ráð fyrir nafngreindri fjárveitingu til Umhverfisverndarsamtaka Íslands upp á 2 millj. kr. sem ég geri ekki athugasemd við. En til að tryggja jöfnuð milli frjálsra félagasamtaka sem starfa að málefnum náttúruverndar ber stjórnvöldum skylda til að veita Náttúruverndarsamtökum Íslands sömu upphæð á þessu sérstaka yfirliti. Við flytjum hér, herra forseti, brtt. þess efnis.

Eins og fram kom í umræðunni í morgun, herra forseti, í andsvari mínu við hv. formann fjárln., Jón Kristjánsson, hafa þeir skýringu á takteinum. Meiri hlutinn skýrir þessa ráðstöfun með þeim orðum að stjórn Umhverfisverndarsamtaka Íslands hafi ákveðið að bjóða ýmsum félagasamtökum á sviði umhverfismála að hafa afnot af skrifstofu samtakanna og starfsmanni. Þetta er skýring meiri hluta fjárln. á þessu nafngreinda framlagi upp á 2 millj. til Umhverfisverndarsamtaka Íslands.

Hv. fjárln. sendi á sínum tíma hv. umhvn. til umsagnar, umsóknir frá Umhverfisverndarsamtökunum og tillögur frá Náttúruverndarsamtökum Íslands. Hv. umhvn. var einhuga í að mæla með fjárstuðningi við bæði samtökin og kemur það fram á þskj. bæði meirihlutaáliti og minnihlutaáliti hv. umhvn.

Fjárln. hunsar álit umhvn. og leggur til nafngreinda fjárveitingu til Umhverfisverndarsamtakanna en ekki til Náttúruverndarsamtakanna. Þegar öllum steinum þessa máls, herra forseti, er velt við koma í ljós lágkúrulegar tilhneigingar stjórnarmeirihlutans. Ekki verður annað séð en að Framsfl. sé hér að hygla fyrrv. framsóknarráðherra, Steingrími Hermannssyni, sem fyrir tveimur árum sá sig knúinn til að stofna Umhverfisverndarsamtök Íslands, sem hefðu m.a. á verkefnaskrá sinni, eins og fram kemur í nefndri umsókn frá samtökunum, að skapa svigrúm fyrir orkufrekan iðnað undir yfirskyni náttúru- eða umhverfisverndar.

Í þessu sambandi, þegar talað er um hagsmunatengsl manna og málefna, má kannski geta þess líka að annar fyrrv. framsóknarráðherra, Jón Helgason, stýrir náttúruverndarsamtökunum Landvernd, sem hafa innan vébanda sinna fyrirtæki á borð við Landsvirkjun. Þessi sami meiri hluti sem við ræðum hér um leggur til að Landvernd, náttúruverndarsamtök Jóns Helgasonar, fái nafngreinda fjárveitingu upp á 3 millj. kr. undir fjárlagalið landbrn. auk þess sem 25 millj. kr. eru ætlaðar í rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Samtök Jóns Helgasonar, Landvernd, eiga að vinna að gerð rammaáætlunarinnar.

Herra forseti. Ég tek það skýrt fram enn einu sinni að ég hef ekkert á móti framlögum ríkissjóðs til Landverndar eða Umhverfisverndarsamtaka Íslands, ekki neitt. Ég styð þessi framlög heils hugar.

Herra forseti. Þá komum við að Náttúruverndarsamtökum Íslands, almannasamtökum með 400--500 manns á félagaskrá, samtökum sem hafa starfað lengur en umhverfisverndarsamtök Steingríms Hermannssonar, samtök sem hafa gengist fyrir ótal verkefnum og trúlega verið virkustu samtök landsins í náttúruvernd. Þau eiga hins vegar ekki að hafa rétt til nafngreindrar fjárveitingar.

Herra forseti. Hér er um grófa mismunun að ræða sem ekki verður unað við. Ég vil leggja fram nokkrar spurningar til hv. þm. Jóns Kristjánssonar, hv. formanns fjárln., sem var einmitt að ganga í salinn.

Er hér, herra forseti, verið að refsa Náttúruverndarsamtökum Íslands fyrir að hafa tekið einarða afstöðu gegn stóriðjustefnu Framsfl.? Má ekki halda því fram, herra forseti, að hér sé um framgöngu að ræða sem flokkast undir spillingu fremur en heilbrigða stjórnarhætti?

Ein spurning enn, herra forseti: Er það rétt sem flogið hefur fyrir að það sé á stefnuskrá Framsfl., með hæstv. umhvrh. í broddi fylkingar, að leggja beri niður Náttúruverndarráð á komandi ári?

Herra forseti. Hvernig getur Framsfl. verið svo blygðunarlaus að skýra þá mismunun sem hér er verið að leggja til með því að Umhverfisverndarsamtök Íslands hafi boðist til að reka skrifstofu fyrir náttúruverndarsamtök á Íslandi? Hvernig getur Framsfl. það, herra forseti? Er hv. þm. Jóni Kristjánssyni kunnugt um hvernig því tilboði verður tekið, tilboði sem enn er ekki búið að leggja fram við nein náttúruverndarsamtök í landinu svo ég viti, tilboði sem fyrrv. ráðherra, Steingrímur Hermannsson, lýsti strax árið 1999 þegar hann stofnaði samtökin sín og gat um í viðtölum að samtökin yrðu regnhlíf yfir öll umhverfis- og náttúruverndarsamtök í landinu? Herra forseti. Ég sé ekki betur en að Steingrímur Hermannsson standi enn einn undir þeirri regnhlíf.

Ég spyr hv. formann fjárln.: Hvernig er hægt að rökstyðja þessa mismunun á þann hátt sem hann gerir?

Til að nefna nokkur þau verkefna sem Náttúruverndarsamtök Íslands hafa staðið fyrir frá stofnun 1997 þá er hér upptalning á því helsta. Kannski væri rétt, herra forseti, að ég vitni fyrst til 3. gr. laga Náttúruverndarsamtakanna, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Markmið samtakanna er að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða. Þessum markmiðum hyggst félagið ná með því að:

Veita stjórnvöldum og framkvæmdaraðilum gagnrýnið aðhald.

Tryggja upplýsingastreymi til almennings.

Vinna að bættri lagasetningu í þágu umhverfis- og náttúruverndar.

Efla samstarf við systursamtök hérlendis sem erlendis.

Færa alþjóðlega umræðu nær almenningi.

Efla vitund almennings um umhverfismál og náttúruvernd.

Fræða almenning um gildi náttúrunnar.

Stuðla að því að stjórnvöld virði alþjóðlegar skulbindingar í umhverfismálum.

Afla fjár til starfsemi sinnar.``

Herra forseti. Árið 1997, á fyrsta starfsári Náttúruverndarsamtaka Íslands, áttu þau frumkvæði að því að vekja athygli á lagningu Búrfellslínu 3A yfir Ölkelduháls og eyðileggingu dýrmætra svæða með slíkri línulagningu. Náttúruverndarsamtökin gerðu sömuleiðis athugasemdir við skipulagstillögur og lögðu fram stjórnsýslukæru við samþykktar skipulagstillögur. Eitt stærsta verkefnið það ár var gerð ítarlegra athugasemda við tillögu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins.

Það ár sendu Náttúruverndarsamtökin einnig frá sér stjórnsýslukæru vegna hringvegarins úr Langadal að Ármótaseli. Athugasemdir Náttúruverndarsamtakanna voru einnig sendar vegna deiliskipulags Hveravalla. Líka voru gerðar athugasemdir við frumathugun á umhverfisáhrifum 132 kílóvatta Nesjavallalínu. Náttúruverndarsamtök Íslands fengu það ár aðild að Climate Network Europe, sem er Evrópudeild alþjóðlegra samtaka sem nefnast Climate Action Network, og eru alþjóðleg regnhlífarsamtök 263 lýðræðislegra umhverfisverndarsamtaka sem berjast fyrir verndum lofthjúpsins. Þetta ár gengu Náttúruverndarsamtökin sömuleiðis í formlegt samstarf við WWF, þ.e. World Wide Fund for Nature.

Þetta ár, 1997, var það og undirbúið að árið 1998 yrði ár hafsins. Náttúruverndarsamtök Íslands sinntu málefnum hafsins þetta ár með fjölda greinarskrifa og með mikilli upplýsingagjöf á netinu. Þetta ár, herra forseti, opnuðu Náttúruverndarsamtök Íslands öfluga heimasíðu með tengingum út um allan heim til sjálfstæðra náttúruverndarsamtaka.

Á öðru starfsári samtakanna 1998 hófst útgáfa fréttabréfs. Sömuleiðis var gefið út ráðstefnurit í samvinnu við Félag um verndun hálendis Austurlands, Fuglaverndarfélags Íslands og Náttúruverndarsamtök Austurlands. Sömuleiðis var enn meira unnið að heimasíðunni og hún gerð enn öflugri. Framan af á þessu ári var mikið um að vera vegna úrvinnslu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins og stjórn Náttúruverndarsamtakanna vann ítarlega álitsgerð um það mál.

Samtökin beittu sér þetta ár líka í umræðunni um sveitarstjórnarlögin, sem var afar mikil. Náttúruverndarsamtökin stóðu ásamt öðrum samtökum að sameiginlegri áskorun þetta ár til ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar um að fresta afgreiðslu frv. til sveitarstjórnarlaga. Sú áskorun var afhent forsrh. 12. maí.

Þetta ár lögðu Náttúruverndarsamtök Íslands lóð sitt á vogarskálarnar með því að standa fyrir ljóðalestri hér á Austurvelli á hverjum einasta fimmtudegi þann vetur sem þing var starfandi og muna hv. þm. sem hér sitja trúlega eftir þeim uppákomum sem haldið var úti á vegum samtakanna í heilan vetur.

Þetta ár héldu Náttúruverndarsamtökin einnig málþing sem fjallaði um áhrif virkjana norðan Vatnajökuls á náttúru og efnahag. Þetta var afar öflugt málþing, haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands 31. okt. 1998 og var mjög fjölsótt og eins og getið var um áðan var gefið út ráðstefnurit að málþinginu loknu.

Sama ár héldu Náttúruverndarsamtökin ásamt öðrum baráttufund í Háskólabíói. Það hvíldi á Náttúruverndarsamtökunum að skipuleggja þann baráttufund og hann sóttu yfir 1.000 manns til þess að láta í ljós vilja sinn til þess að standa með hálendinu gegn náttúruspjöllum.

Þetta ár var einnig fjallað um Vatnsfellsvirkjun og Þjórsárver. Í júnímánuði það ár lögðu Náttúruverndarsamtök Íslands fram stjórnsýslukæru vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins um framkvæmdir við 140 megavatta Vatnsfellsvirkjun. Sama ár felldi umhvrn. úrskurð skipulagsstjórans úr gildi og tók þar með undir þá kröfu Náttúruverndarsamtakanna að meta skyldi framkvæmdina að nýju. Þarna höfðu Náttúruverndarsamtökin sannarlega árangur sem erfiði.

Háreksstaðaleið og vegagerð á Jökuldalsheiði var líka til umfjöllunar og Náttúruverndarsamtök Íslands lögðu fram stjórnsýslukæru vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins um framkvæmdina. Farið var fram á að umhvrh. kvæði upp úr um að endubyggja skyldi núverandi þjóðveg um Möðrudalsöræfi og Háreksstaðaleið yrði hafnað. Þetta ár lögðu Náttúruverndarsamtökin einnig sitt af mörkum til vinnunnar við loftslagsmálin og Kyoto-bókunina. Sú ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að undirrita ekki Kyoto-bókunina stríðir að mati samtakanna gegn vilja þeirra sem standa vilja að náttúruvernd.

Þriðja starfsárið, 1999, var ekki síður öflugt. Skrifstofa samtakanna var opnuð í apríl það ár og annáll verkefna gefinn út í fréttabréfi. Mikið var lagt í að uppfræða fólk um Fljótsdalsvirkjun, Eyjabakka og kröfuna um lögformlegt umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun. Þar unnu Náttúruverndarsamtökin ásamt öðrum náttúruverndarsinnum, eins og allir vita, áfangasigur þegar hætt var við að virkja með uppistöðulóni á Eyjabökkum.

Þá er ég komin að skýrslunni um starf samtakanna á yfirstandandi ári og þar nefni ég fyrst náttúruverndarþing. Í janúar 2000 var haldið náttúruverndarþing og áttu Náttúruverndarsamtök Íslands frumkvæði, a.m.k. að tveimur ályktunum sem samþykktar voru á þinginu. Fjöldi fólks frá Náttúruverndarsamtökum Íslands tók þátt í þessu þingi.

Í janúar á þessu ári stefndu Náttúruverndarsamtök Íslands íslenskum stjórnvöldum, annars vegna ógildingar á virkjunarleyfi sem Landsvirkjun var veitt 1991 fyrir Fljótsdalsvirkjun og hins vegar til að knýja fram mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar í samræmi við gildandi lög. Áfram hefur verið unnið að loftslagsbreytingarmálunum og fulltrúar frá samtökunum sátu nýafstaðið þing Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmálin í Haag.

Náttúruverndarsamtökin hafa fylgst náið með þróun mála á erlendri grund og eiga eins og áður hefur komið fram aðild að Climate Network Europe og taka virkan þátt í því starfi. Sömuleiðis hafa Náttúruverndarsamtökin eða fulltrúar þeirra átt fulltrúa á fundi vísinda- og tækninefndar rammasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Ég á þá einungis eftir að telja upp umsagnir Náttúruverndarsamtakanna vegna vegagerðarinnar yfir Vatnaheiði og þau afskipti sem Náttúruverndarsamtökin hafa haft af kísílgúrtöku úr Mývatni, álveri á Reyðarfirði og störf þeirra vegna rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar en Náttúruverndarsamtökin eiga fulltrúa í faghópi um náttúru- og menningarminjar í þeirri vinnu.

[22:15]

Fyrir þessari starfsemi, herra forseti, hafa staðið þau samtök sem meiri hluti fjárln. hefur lagst gegn að fari sem nafngreindur liður inn á fjárlög á meðan Umhverfisverndarsamtök Steingríms Hermannssonar fara þar inn sem nafngreindur liður. Má ég biðja hv. þm. Jón Kristjánsson að leggja fram sambærilegan lista og ég hef nú lesið upp um Náttúruverndarsamtök Íslands, yfir verkefni þeirra samtaka sem hann leggur til að fari sem sérgreindur liður á fjárlög íslenska ríkisins, Umhverfisverndarsamtök Íslands? Við skulum sjá hvort við höfum rétt fyrir okkur varðandi þá mismunun sem ég hef reynt að koma orðum að og bregða ljósi á.