Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 22:17:39 (3096)

2000-12-08 22:17:39# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[22:17]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður fjárln. hefur ekki svarað þeirri spurningu sem ég óskaði eftir að yrði svarað: Hvers vegna er um þá mismunun að ræða að önnur samtökin fara inn sem nafngreindur liður en hin ekki? Ég lagði sömu spurningu fyrir hv. þm. í morgun. Skýringin sem þá kom var sú að Umhverfisverndarsamtök Íslands ætluðu að reka skrifstofu með starfsmanni sem önnur náttúruverndarsamtök ættu að hafa aðgang að.

Herra forseti. Náttúruverndarsamtök Íslands reka skrifstofu með starfsmanni. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa aldrei vanþakkað það fé sem þau hafa fengið í gegnum opinbera kerfið. Allir eru þakklátir fyrir það framlag sem ríkisstjórnin hefur lagt til náttúruverndarsamtaka, burt séð frá því hvað þau heita. En hér er um alvarlega mismunun að ræða á milli tveggja nafngreindra umhverfisverndarsamtaka sem hafa bæði sótt um fjárframlög til íslenska ríkisins núna, hafa bæði sótt það stíft, hafa bæði sama rétt, hafa bæði hlotið umsögn umhvn. og jákvæð viðbrögð. Hvernig stendur á því, herra forseti, að önnur fara inn sem nafngreindur liður en ekki hin?